„Ræða þak á laun stjórnenda

Í Morgunblaðinu í dag er fjallað um mál sem koma til umræðu á þingi ASÍ. Fyrirsögn fréttarinnar er „Ræða þak á laun stjórnenda.  Þar er greint frá áformum innan verkalýðshreyfingarinnar „um að setja launakjörum stjórnenda lífeyrissjóða ákveðnar skorður eða hámarksviðmið.
Örn Pálsson framkvæmdastjóri LS vék að þessu málefni á aðalfundi LS 16. og 17. október sl. þar sem hann sagði frá tillögu og afdrifum hennar sem hann flutti á ársfundi Gildis lífeyrissjóðs í apríl sl.  Með samþykkt hennar hefði fulltrúa Gildis í stjórn Haga verið falið að leggja fram eftirfarandi tillögu á stjórnarfundi fyrirtækisins:
„Stjórn Haga samþykkir að ráðningarsamningur við forstjóra fyrirtækisins verði tekinn til endurskoðunar þannig að mánaðarleg laun, hlunnindi og árangurstengdar þóknanir fari ekki umfram 3,0 milljónir.  Jafnframt verði ráðningasamningar annarra stjórnenda teknir til endurskoðunar þar sem sambærilegar greiðslur verði innan hóflegra marka. 
Í greinargerð með tillögunni var vitnað til samskipta og siðareglna fyrir stjórn og starfsmenn Gildis, þar sem m.a. segir:  
gildi-logo.jpg
„Sjóðurinn fjárfestir ekki í fyrirtækjum sem ofbjóða siðferðisvitund almennings með ósanngjarnri framkomu gagnvart starfsfólki s.s. varðandi kjör og stjórnunaraðferðir eða með óhófi í launamálum stjórnenda sem og öðrum rekstrarþáttum.  
Þá var þess einnig getið í greinargerðinni að Gildi væri eigandi 10,32% í Högum og í ársskýrslu fyrirtækisins 2012 – 2013 væru mánaðarlaun til forstjóra 6 milljónir.
Eftirfarandi er úr ræðu Arnar Pálssonar á 30. aðalfundi LS.
„Hvernig skyldi nú þessari ágætu tillögu hafa reitt af?  Í stuttu máli var allt reynt til að finna á henni hnökra þannig að ekki þyrfti að taka hana fyrir.  Það þótti t.d. með ólíkindum að ársfundur væri æðsta vald sjóðsins, en ekki stjórnin!  Stjórnarformaðurinn lét afar ófriðlega og beitti fyrir sig ótrúlegu ákvæði í samþykktum sjóðsins.  Ákvæði sem í raun gerir það vonlaust að fá svona tillögu sem tekur á málum samþykkta.  
ÖP 05-2009.jpg
„Við atkvæðagreiðslu ræður afl atkvæða nema örðuvísi sé ákveðið í samþykktum þessum.  Þó er heimilt að óska eftir skiptri atkvæðagreiðslu, þannig að fulltrúar samtaka atvinnurekenda og stéttarfélaga greiða atkvæði hvor í sínu lagi og þarf þá tilskilinn meirihluta í báðum hlutum fulltrúaráðsins svo að samþykkt sé lögmæt.
M.ö.o. þeir sem eiga ekkert í sjóðnum geta ráðið öllu.  Svona lagað held ég að sé ein mesta lágkúra sem launþegahreyfingin hefur skrifað undir.  Þar virðist ekki sá skilningur lagður í greiðslur í lífeyrissjóð að þær eru alfarið laun sem launþeginn hefur unnið sér inn, framlag atvinnurekandans eru laun sem hann féllst á að greiða, en í stað þess að launþeginn fái það strax þá á hann það og leggur það inn í sameiginlegan sjóð sem tryggir betur velferð hans. 
 
En hvað varð um tillöguna?  Jú – svokölluð málsmeðferðar tillaga fundarstjóra var samþykkt um að henni yrði vísað til stjórnar sjóðsins „sem taki hana til efnislegrar meðferðar í samræmi við og samkvæmt samskipta- og siðareglum og hluthafastefnu sjóðsins.
Að lokum þetta – með því að eiga rúm 10% í fyrirtæki greiðir Gildi í raun 10% af launum þeirra sem þar vinna – kannski langsótt en í raun er það svo.  Ef aðeins eru tekin laun forstjóra Haga eru það 7,2 milljónir á ári, ef 5 næstráðendum er bætt við er upphæðin sem Gildi greiðir 26 milljónir.    Það jafngildir ársiðgjöldum 80 sjóðsfélaga.  
Dropinn holar steininn.   
Ég hvet sjóðfélaga til að fylgjast vel með lífeyrissjóðamálum, of seint er að gera það þegar taka lífeyris er hafin!..
Eftirvænting ríkir um hvernig launþegahreyfingin, 41. þing ASÍ, muni afgreiða málið.