Gildi lífeyrissjóður hélt kynningarfund fyrir sjóðfélaga í dag 28. október. Á fundinum voru tvö mál á dagskrá. Starfsemi og staða Gildis og kynning á samrunasamningi Gildis og Lífeyrissjóðs Vestfirðinga.
Framkvæmdastjóri Gildis, Árni Guðmundsson, fór ítarlega yfir málin. Hann greindi frá því að Lífeyrissjóður Vestfirðinga hefði óskað eftir sameiningu og hefði stjórn Gildis samþykkt beiðnina. Í kynningu á samrunasamningnum kom m.a. fram að flestar tölur í starfsemi LV voru um 10% af sambærilegum þáttum hjá Gildi. Gert væri ráð fyrir að áfram yrði starfstöð á Ísafirði. Fram kom í máli Hörpu Ólafsdóttur formanns stjórnar Gildis að yrði sameiningin samþykkt yrði heildareign sjóðsins um 400 milljarðar.
Allt útlit er fyrir að Gildi lífeyrissjóður skili mjög góðri ávöxtun á árinu. Framkvæmdastjóri fór yfir helstu tölur í rekstri sjóðsins að loknum 3. ársfjórðungi. Raunávöxtun á tímabilinu var 6,26%, en til samanburðar var raunávöxtun fyrir fyrstu 10 mánuði í fyrra 4,8%.
Gríðarleg aukning hefur orðið á lánveitingum til sjóðfélaga, enda lánin trúlega þau hagstæðustu sem í boði eru í dag. Alls var búið að lána rúman milljarð á fyrstu 9 mánuðunum, í fyrra var fjárhæðin 304 milljónir á 10 mánaða tímabili.
Aukaársfundur Gildis verður haldinn miðvikudaginn 3. desember þar sem samrunasamningurinn verður borinn undir fulltrúaráð sjóðsins.