Í Hagtíðindum Hagstofu Íslands í október koma fram margvíslegar upplýsingar sem vert er að vekja athygli á. Þar skal fyrst telja að heildarafli íslenskra skipa 2013 varð 1.363 þús tonn sem skilaði 153 milljörðum í aflaverðmæti. Meðaltal á hvert kíló var rúmar 112 krónur sem er 2 krónum hærra en 2012.
Botnfiskafli
Af botnfiski voru veidd tæp 454 þús. tonn sem er aukning um 8,3% á milli ára. Verð á hvert kíló lækkaði hins vegar um 12%, úr 233 krónum í 205 krónur. Þorskurinn rétt slefaði yfir 200 krónurnar í meðalverð á kíló 2013, sem er 17,1% lægra en 2012 þegar meðalverðið var 242 krónur.
Aðra sögu er að segja af ýsunni þar hækkaði verð milli ára um 3,9%. Meðalverðið var 266 krónur 2013.
Þorskafli jókst um 15,3% milli áranna 2012 og 2013, en ýsuaflinn dróst saman um 4,6%. 236 þús. tonn veiddust af þorski en 45,5 þús tonn af ýsu.
Uppsjávarafli
Uppsjávarafli íslenskra skipa 2013 nam 869 þús. tonnum sem var 121,6 þús. tonnum minna en 2012. Meðalverð á hvert kíló var 41,8 króna á móti 38,5 kr 2012 sem er 8,6% hækkun milli ára.
Meðalverð á makríl var 100,1 kr 2013 en 95 kr á árinu 2012. Aflaverðmæti makríls 2013 var 15,4 milljarðar jókst um 1 milljarð milli ára.
Töflur unnar af LS