Ýsugengd veldur miklum vanda

„Ýsugengd veldur miklum vanda er yfirskrift viðtals Fiskifrétta við Þorvald Garðarsson varaformann Landssambands smábátaeigenda sem birtist í blaðinu 13. nóvember sl.
Viðtalið birtist í föstum dálki Fiskifrétta „KARLINN Í BRÚNNI og er eftirfarandi:
Þorvaldur Garðarsson, skipstjóri á Sæunni Sæmundsdóttur ÁR og varaformaður Landssambands smábátaeigenda, segir að þokkalega hafi gengið það sem af er vertíð en báturinn hefur verið á línuveiðum og hefur landað alls tæpum 92 tonnum af óslægðu á fiskveiðiárinu.


ÞorvG.jpg
„Á tímabili í haust vorum við og Dúddi Gísla GK eiginlega einu bátarnir við suðurströndina á línu. Þannig að það var nóg pláss,’ segir Þorvaldur, sem var í landi þegar slegið var á þráðinn til hans fyrr í vikunni. 
Hann segir að það hafi ekki verið mikill kraftur í veiðunum en reytingur fengist. 
„Svo hefur  nánast eingöngu verið ýsa hérna í fjörunni. Við erum ekki með það mikinn ýsukvóta þannig að það stefnir bara strax í vandræði ef við liggjum í henni.  Í hvassri norðanátt um síðustu helgi var ekkert annað en ýsu að hafa upp með ströndinni úti fyrir Stokkseyri.’
Ekki einn á flótta
Sæunn Sæmundsdóttir er um 15 tonna bátur með beitingarvél. Þrír eru á bátnum og hafa þeir verið að leitast við að ná sem mest af löngu. En aflinn hefur verið blandaður. Öllu er landað á fiskmarkaði. 
Þorvaldur segir að hann sé ekki einn um að vera á flótta undan ýsunni. Þetta eigi við um starfsbræður um allt land nú orðið. Þeir sem eiga ekki ýsukvóta geta fengið leigðan kvóta á sama verði og fæst fyrir ýsuna á markaði. Það borgi sig náttúrulega engan veginn en menn lendi í þessu þegar þeir eru stopp og vilja komast á sjó. Þá hafi þeir hreinlega borgað með sér. 
Meira af ýsu fyrir norðan en sunnan
„Stofnmæling Hafrannsóknastofnunar stenst eiginlega engan veginn að mínu mati. Þetta er mjög undarlegt allt saman. Hér fyrir u.þ.b. 20 árum var ýsan eingöngu hér við suðurströndina og Suðausturland og hefur alltaf verið. En nú bregður svo við að hún fór að veiðast fyrir norðan, austan og allt í kringum landið og mun meira er af henni fyrir norðan en sunnan þessi misserin. En það er alveg jafnmikið af ýsu hér núna og var áður og svo bætist við að það bullandi ýsa allt í kringum landið. En alltaf fær Hafró sömu niðurstöðuna og finnur ekki  ýsu. Mér finnst Hafró of fastheldin á togararallið og menn á þeim bæ sjá ekkert út fyrir það. Þeir eru ekki mikið að toga upp á grunnslóðinni þannig að niðurstöðurnar eru varla marktækar,’ segir Þorvaldur. 
Hann á óveidd um 25 tonn af ýsu sem hann verður að láta duga von úr viti til að dekka ýsuna sem meðafla. 
„Hafró er alveg ófáanleg til þess að taka upp aðrar aðferðir til þess að leggja mat á stofninn. Ég sé lítinn mun á ýsugegndinni núna eða í fyrra. Þetta er mjög svipað og eins og verið hefur undanfarin ár en stóri munurinn er  sá að ýsan veiðist nú allt í kringum landið. Þeir vissu varla fyrir norðan hvernig ýsa leit út en nú er orðið ennþá meira af henni þar heldur en hér  fyrir sunnan. Það er því eitthvað bogið við þetta.’
Minna landað
Þorvaldi finnst menn vera orðnir fastir í þráhyggju sem þeir komast ekki út úr og vænlegast væri að skipta um menn í brúnni hjá Hafró. 
„Það eru allir sjómenn að glíma við þetta sama. Svona niðurskurður á aflaheimildum minnkar ekkert veiðina heldur gæti ástandið leitt til þess að minna af ýsu, sem þó er veidd, sé landað. Menn leggja ekki flotanum. Þetta gæti orðið til þess að menn neyðist til að henda ýsunni. Ég held að það eigi sér samt ekki stað núna. Menn leigja frekar ennþá kvóta meðan það er hægt. Það alvarlega við þetta mál er að það er hvergi hægt að vera að veiðum fyrir ýsunni. Þetta sleppur kannski ennþá hjá flestum en þegar líður fram yfir áramót og fram á vertíð verða þeir menn búnir með alla ýsu og engan leigukvóta að hafa. Þess vegna endar þetta kannski með því að menn verða að fleygja henni. Ég vil því eindregið hvetja stjórnvöld til að bregðast við ástandinu og bæta við veiðiheimildir og auka sveigjanleika.’