Breytingin á hámarksstærð báta í krókaaflamarkskerfinu
Þurftafrekir „smábátar
er yfirskrift greinar eftir Steinar Skarphéðinsson sem gerir út færabátinn Helgu Guðmundsdóttur SK 23 frá Sauðarkróki. Greinin birtist í Fiskifréttum 20. nóvember sl.
Þing Landssambands smábátaeigenda (LS) var haldið 16. og 17. október sl. Þar mætti sjávarútvegsráðherrann og flutti okkur þingfulltrúum að sjálfsögðu pistil sinn. Hann lauk máli sínu með því að kveða fast að orði um að á Íslandi ætti að vera öflug smábátaútgerð.
Orðið smábátur öðlaðist skyndilega nýja merkingu þegar sami ráðherra breytti með einu pennastriki reglu um hámarksstærð báta í smábátakerfinu úr 15 brúttótonnum í 15 metrar og 30 tonn. Hvað ráðherra gekk til með þessari ráðstöfun er mörgum hulin ráðgáta eða er það eðlilegt að bátur teljist smábátur sem er 15 metra langur, 6 metra breiður með 900 hestafla vél og með fjórum tveggja manna klefum. Slíkur bátur teldist 50 til 60 brúttótonn að stærð væri hann mældur með tommustokk af réttri lengd
Kvótinn flyst á stærri bátana
Margir hafa látið þau orð falla að þessi framkvæmd ráðherra sé til þess fallin að rústa því smábátakerfi sem hefur verið við lýði undanfarið, þó með breytingum. Eitt er ljóst að í gamla 15 brúttótonna krókaaflamarkskerfinu voru menn ekkert of birgir af kvóta. En með þessum breytingum mun stór hluti af krókaaflamarkinu flytjast á þessa stærri báta, sem hefðu orðið að vera í aflamarkskerfinu ef þessar breytingar hefðu ekki komið til.
Hvað þýðir þetta á mannamáli? Það þýðir að allt krókaaflamark sogast á þessa stærri báta og lítið eða ekkert verður eftir á smærri bátunum. Á sínum tíma voru sett lög um að ekki mætti færa kvóta úr krókaaflamarki í aflamark þar sem stærri útgerðir stunduðu það að kaupa upp smábáta og hirða af þeim kvótann. Með síðustu stækkun smábáta var séð við þeirri aðgerð.
Hagsmunasamtök stærri smábáta
Þá hefur það einnig gerst að hluti útgerðaraðila í smábátakerfinu hefur ekki talið sig eiga samleið með LS þar sem LS var alfarið á móti því að auka leyfilega hámarksstærð báta. Þessir menn hafa stofnað sitt eigið hagsmunafélag, Samtök smærri útgerða (SSÚ), þar sem nú eru um 20 öflugir bátar og fer þeim fjölgandi. Einnig eru þessar útgerðir að kaupa til sín veiðiheimildir og báta með veiðiheimildum til þess að sameina kvótana á stærri bátana. Það er því klárt að þarna verður mikil samþjöppun og það sem verra er að þarna er um örfá byggðarlög að ræða. Hvað verður þá um hinar smærri byggðir sem hafa átt erfitt uppdráttar? Þar verður ekkert eftir nema grásleppuveiðar og strandveiðar. Vonandi er að vel takist til með strandveiðar eins og einn ágætur SSÚ maður sagði.
Hrópleg mismunun?
Í skoðunargrein í Fiskifréttum 23. október sl. er útgerðarmaður í Grindavík, sem gerir út smábáta í krókaaflamarkinu, gráti næst yfir því að mega ekki eiga 12% af krókaaflamarkinu. Hann kvartar yfir því ranglæti sem hann er beittur lagalega og kallar þetta hróplega mismunun og vitnar þar í aflamarkskerfið. Ef þetta væri þannig að hver útgerð mætti eiga 12% þýddi það að tvær útgerðir í Grindavík gætu átt nánast ¼ af öllu krókaaflamarki eða átta öflugar útgerðir átt nánast allt krókaaflamark landsins. Það er slæmt að ekki skuli allir vera jafnir fyrir lögum, sérstaklega þegar að um er að ræða sameign þjóðarinnar.
Höfundur er vélstjóri og gerir út færabátinn Helgu Guðmundsdóttir SK 23