Ragnari Árnasyni hagfræðiprófessor svarað
Óboðlegur málflutningur
er yfirskrift meðfylgjandi skoðunargreinar eftir Örn Pálsson sem birtist í Fiskifréttum í dag 27. nóvember.
Ragnar Árnason prófessor á Félagsvísindasviði við Hagfræðideild Háskóla Íslands flutti erindi á sjávarútvegsráðstefnunni 2014 þar sem hann reiddi hátt til höggs og réðst af hörku á sérveiðar smábáta. Hér verður aðeins tekið eitt atriði út úr erindinu og það krufið út frá markmiðum laga um stjórn fiskveiða.
Eins og að kasta peningum
Ragnar: Strandveiðar – eins og að kasta peningunum út um gluggann – árlegur fórnarkostnaður þjóðfélagsins vegna strandveiða 1,9 milljarðar. Hann sagði þá í deildinni vera búna að fara yfir þetta og talan því öðlast rannsóknarígildi.
Á þessum tímapunkti í erindinu náði ég vart upp í nefið á mér fyrir reiði. Hvers eiga upprennandi þjóðfélagsþegnar, sem innrættur er slíkur málflutningur af prófessor í æðstu menntastofnun landsins, að gjalda. Ég hefði nú haldið að viðfangsefnið væri svo mikils virði að það réttlætti að vera krufið frá öllum hliðum og þá ekki síst út frá markmiðum laga um stjórn fiskveiða:
„Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra (nytjastofna á Íslandsmiðum – innskot ÖP) og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.
Útspil Steingríms J.
Í kosningabaráttunni 2009 var umræðan um sjávarútveginn mjög fyrirferðarmikil og heiftúðug á köflum. Skoðanakannanir sýndu að Frjálslyndi flokkurinn, sem hefur það m.a. á stefnuskrá sinni að umbylta kvótakerfinu, átti erfitt uppdráttar. Viðsnúningur var þó hafinn og var spá þeirra sem til þekktu sú að hann myndi ná inn 2-3 mönnum. Á þessum tímapunkti kom óvænt útspil austan úr Þistilfirði frá Steingrími J. Sigfússyni – kæmust Vinstri grænir til valda myndu þeir tryggja að sérhver Íslendingur gæti farið á sjóinn og veitt á handfæri ákveðið magn. Ekki var þó gert ráð fyrir að arður af veiðunum myndi leyfa neinar fjárfestingar, aðeins að borga gjöld sem leiddu af því að eiga bát og greiða þokkaleg laun fyrir þann sem væri um borð.
Það var eins og við manninn mælt – fylgi Frjálslyndra tók aftur að dala og náðu þeir ekki manni inn á Alþingi. Eitt af fyrstu verkum norrænu velferðarstjórnarinnar var að útbúa frumvarp um strandveiðar sem Alþingi samþykkti í júní 2009. Strandveiðar hófust upp úr því.
Ég ætla að leyfa
mér að fyllyrða að
með lögleiðingu
strandveiða varð
styrkari stoðum rennt
undir kvótakerfið
Styrkir kvótakerfið í sessi
Ég ætla að fullyrða að með lögleiðingu strandveiða varð styrkari stoðum rennt undir kvótakerfið. Andstæðingar kerfisins höfðu jú haldið upp öflugum málflutningi þess efnis að ekki væri hægt að hefja útgerð öðruvísi en að leigja veiðiheimildir af „sægreifunum, kerfið lokaði fyrir alla nýliðun. Strandveiðar komu til móts við þetta auk þess sem strandveiðikerfi rétti af slagsíðuna sem myndaðist við álit Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.
Hundruð milljóna í gjöld
Þrátt fyrir afar takmarkaðan afla hafa að meðaltali 700 bátar tekið þátt í veiðunum þau 5 sumur sem strandveiðar hafa verið stundaðar alla 4 mánuðina. Aflinn hefur verið að meðaltali um 7.000 tonn af þorski eða að meðaltali 10 tonn á bát. Á hverju ári greiðir hver og ein útgerð strandveiðibáts 72 þúsund krónur til hafna landsins og vegna veiðileyfa eða alls um 300 milljónir á þessum 5 árum. Þessir árlegu gjaldstofnar eru umfram það sem aðrir útgerðarhópar greiða. Varlega áætlað má gera ráð fyrir að 700 sjómenn hafi atvinnu af strandveiðum og afleidd störf í landi séu á annað hundrað.
Aflinn sem strandveiðibátar færa að landi er veiddur á handfæri á grunnslóð. Hver veiðiferð stendur aðeins yfir í 14 klst. sem skilar aflanum sem hágæðavöru. Nánast allur afli frá strandveiðibátum er seldur á fiskmörkuðum þannig að allt eftirlit með gæðum er auðvelt.
Skoðun framkvæmdastjóra Iceland Seafood
Svo þessi skoðun verði nú ekki eintal mitt við þig lesandi góður ákvað ég að gefa Bjarna Benediktssyni framkvæmdastjóra Iceland Seafood orðið. Tekið úr viðtali við hann í Fréttablaðinu 4. febrúar sl. Hann sagði
„markaðssetningu íslenskra sjávarafurða ekki vera eins markvissa og árangursríka eftir að stóru sölusamtökin hurfu af sviðinu. Norðmenn og Rússar hafa unnið upp forskot Íslands í sjófrystingu. Afli smábáta skiptir miklu máli í markaðssetningu.
„„Menn eru alltaf að tala um að afhendingaröryggi í sjávarútvegi sé mikilvægt, og því má spyrja, ef afli smábáta dytti út af mörkuðum yfir sumarið, hvað væri hægt að bjóða? Þessi afli er lykillinn að því að við getum boðið ferskan fisk á ársgrundvelli, sagði Bjarni og bætti við að afli smábáta tengdist vissulega líka aukinni kröfu um rekjanleika sjávarfangs þar sem neytandinn vill vita hvar fiskurinn er dreginn á land og af hverjum. „Þetta styður hvert annað, stórt og smátt.
Dregið úr átökum
Ég segi það hiklaust hér að það er sameiginlegt álit þeirra sem ég þekki til í sjávarútveginum að strandveiðar hafi leitt til minni átaka um atvinnugreinina.
Strandveiðar hafa gefið hundruðum aðila tækifæri til útgerðar yfir sumarmánuðina og kveikt aftur líf við hafnir hinna dreifðu byggða. Þannig hafa þeir lagt ómælt af mörkum í að efla sjávarútveg á Íslandi og á það ekki síst við um ímynd hans.
Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.