Mikið tjón varð í Noregi þegar fellibylurinn Nína gekk þar yfir um síðustu helgi. Svo mikill var veðurofsinn að sjókvíar gáfu sig og þúsundir fiska sluppu. Í frétt Bergens Tidende kemur fram að 94 þús. regnbogasilungar hafi sloppið. Meðalþyngd á hverjum fiski er á milli 2,5 – 3,5 kg.
Atburðurinn átti sér stað í Osterfjorden skammt frá Bergen.
Varað hefur verið við neyslu á fiskinum þar sem honum var gefið lúsameðalið Slice þann 19. desember, en það tekur um 50 daga fyrir fiskinn að hreinsa það út.
Mikil áhersla er lögð á að endurheimta það sem slapp og þá ekki síst vegna þess skaða sem silungurinn getur valdið öðrum fiskistofnum.
Við tjónið hefur farið af stað umræða um þau efni sem notuð eru í sjókvíaeldinu hvaða áhrif það hefur á nærsvæði.
Í fréttinni er einnig getið um frekara tjón sem óveðrið olli þar sem lax slapp úr kvíum.