Elding ályktar um atvinnumál

Það hefur vart farið fram hjá neinum að íbúar tveggja byggðarlaga á Vestfjörðum eiga í miklum vanda vegna erfiðleika í atvinnumálum.   Með brotthvarfi Vísis frá Þingeyri leggst fiskvinnsla nánast af á staðnum og þá hefur Arctic Oddi á Flateyri ákveðið að hætta bolfiskvinnslu.  Tugir íbúa þessara staða missa við þessar ákvarðanir atvinnuna.
Elding félag smábátaeigenda í Ísafjarðarsýslum hefur látið málið til sín taka.  Formaður Eldingar, Sigurður Hjartarson, kallaði stjórn félagsins til fundar í gær.  Á fundinum var rædd sú
grafalvarlega staða sem upp er komin.  Að sögn Sigurðar er endurreisn fiskvinnslu lykilatriði svo koma megi í veg fyrir fólksflótta frá þessum stöðum.   Hann sagði íbúa staðanna staðráðna í að verja byggðirnar og reyna allt hvað þeir gætu til að samvinna við Byggðastofnun takist þannig að aflaheimildir stofnunarinnar gætu tryggt áframhaldandi atvinnu.
Í lok fundar Eldingar var eftirfarandi ályktun samþykkt. 
„Stjórn Eldingar – félags smábátaeigenda í Ísafjarðarsýslum lýsir yfir miklum áhyggjum af atvinnumálum á Flateyri og Þingeyri. Elding hvetur Byggðastofnun og hluteigandi aðila að vinna hratt og örugglega að lausn vandans. 

Jafnframt minnir Elding á að töluverður fjöldi krókabáta í eigu heimamanna er nú þegar á svæðinu.   


Stjórn Eldingar – félags smábátaeigenda í Ísafjarðarsýslum leggur áherslu á að sá vandi sem byggðalögin eiga nú í verði leystur í samvinnu við heimamenn, útgerðir og fiskvinnslu.  

Stjórn Eldíngar áréttar að stjórnvöld geri strax áætlun um að þegar í stað verði gerð raunhæf byggðastefna.  Það  gerir  sjávarþorpum kleift að halda byggð og eflast með fiskimið við bæjardyrnar sem undirstöðu fyrir þau.