MSC vottun á íslenskum grásleppuveiðum hefur vakið nokkra athygli. Bæði er það vegna þess að veiðarnar hafa hvergi verið vottaðar áður, Ísland því fyrst veiðiþjóða, og að stjórnun veiðanna er ekki samkvæmt aflareglu.
Síðastliðinn föstudag var vottunin staðfest með afhendingu skírteinis frá Vottunarstofunni Tún til Vignis G. Jónssonar ehf. Eins og með aðrar MSC vottanir á Íslandi heldur fyrirtækið Iceland Sustainable Fisheries (ISF) utan um skírteinið. Það veitir öllum hluthöfum þess rétt til að selja MSC vottaðar grásleppuafurðir, sem aflað hefur verið við veiðar báta með grásleppuleyfi.
Vottunin verður vonandi til að auka eftirspurn frá Íslandi eftir grásleppu, hrognum og grásleppukavíar.
Samkvæmt reglum WWF (Aþjóða náttúruverndarsjóðurinn) viðurkennir hann allar veiðar sem hafa verið vottaðar af MSC. Grásleppan ætti þar með að hverfa af válista WWF og eiga aftur greiðan aðgang í allar verslanir í Svíþjóð og Þýskalandi.
Athygli vekur að aflaregla kemur ekki að stjórn grásleppuveiða, en þrátt fyrir það hafa veiðarnar öðlast vottun. Hún er því viðurkenning til grásleppukarla fyrir ábyrga nýtingu stofnsins og veiðarnar í heild.
LS hefur árlega sent sjávarútvegsráðherra tillögu um fjölda veiðidaga sem félagið byggir á fjölmörgum þáttum. Þar vegur mest niðurstaða úr víðtæku samráði við grásleppukarla um ástand og horfur. Þá hefur tillagan einnig tekið mið af markaðsástandi hvers tíma og áliti Hafrannsóknastofnunar á stærð stofnsins. Auk takmarkaðs fjölda daga er veiðunum stýrt með fjölda neta og stærð báta sem leiðir af því að veður hefur í meira mæli takmarkandi áhrif á það magn sem veitt er.