Að undanförnu hafa nokkrir smábátaeigendur unnið að stofnun sérstaks félags í Skagafirði. Undirbúningsstofnfundur var haldinn 5. janúar sl. en á honum kom fram að verulegur hljómgrunnur var fyrir stofnun nýs félags meðal skagfirskra smábátaeigenda. Ákveðið var að boða til stofnfundar og var hann haldinn á Sauðárkróki sl. laugardag 24. janúar.
Ákveðið var að félagið fengi nafnið Drangey – Smábátafélag Skagafjarðar.
Í stjórn voru kosnir eftirtaldir:
Steinar Skarphéðinsson formaður
Höskuldur Hjálmarsson varaformaður
Þórður Þórðarson ritari
Þorvaldur Steingrímsson gjaldkeri
Jón G. Jóhannsson meðstjórnandi.
Á fundinum lá fyrir yfirlýsing 25 smábátaeigenda í Skagafirði um skráningu í félagið. Stofnfundurinn var ágætlega sóttur og greinilegur hugur í trillukörlum að láta til sín taka um ýmis mál sem tengjast nær umhverfi þeirra. Í því skyni hyggjast þeir sameina sem flesta smábátaeigendur á svæðinu og vinna þétt við hlið annarra smábátafélaga. Þá mun Drangey óska eftir að félagið verði eitt af svæðisfélögum Landssambands smábátaeigenda. Í lögum félagsins er ákvæði um að Drangey – Smábátafélag Skagafjarðar sé aðili að Landssambandi smábátaeigenda.
Fundurinn fól stjórn Drangeyjar að óska eftir viðræðum við stjórn Skalla um væntanlega umsókn félagsins sem eitt af svæðisfélögum LS, en félagssvæði Skalla er Hvammstangi – Siglufjörður.
Formanni og framkvæmdastjóra LS var boðið að sitja stofnfundinn. Í máli þeirra komu fram árnaðaróskir til hins nýja félags og vonir um að stofnun þess verði til að efla enn frekar baráttu smábátaeigenda fyrir auknum veiðirétti.
Í lok stofnfundar Drangeyjar var eftirfarandi samþykkt um dragnótaveiðar í Skagafirði.
„Drangey – Smábátafélag Skagafjarðarskorar á sjávarútvegsráðherra að beita sér fyrir þvíað Skagafjörður verði áfram lokaður fyrir dragnótaveiðum.