Útflutningsverðmæti á ferskum þorski er að nálgast 23 milljarða á fyrstu 11 mánuðum sl. árs. Meðalverð er nánast óbreytt frá sama tímabili 2013, en þá skilað hann 1,3 milljörðum meira.
Alls var búið að flytja út 19 þús. tonn á tímabilinu janúar – nóvember 2014 sem er 900 tonnum minna en á sama tíma 2013.
Engin breyting hefur orðið á röð okkar helstu viðskiptalanda. Frakkar bera þar ægishjálm yfir aðrar þjóðir með helmingi meira en Bretar sem koma næstir. Skammt þar á eftir er Belgía og í fjórða sæti eru Bandaríkin.
Samanlagt keyptu þessar þjóðir rúm 88% af þeim ferska þorski sem fluttur var út á fyrstu 11 mánuðunum í fyrra, 2013 var hlutur þeirra 91%.
Í fyrra varð umtalsverður samdráttur í sölu til Bretlands eða um fjórðungs minni sala en 2013. Aukning varð hins vegar til Bandaríkjanna sem nam 29%.
Ánægjulegt er að sjá að umtalsverð aukning varð hjá þeim þjóðum sem næstar koma á listanum yfir mestu kaup héðan af ferskum þorski, Sviss og Kanada. Til Sviss jókst magnið um 28% og Kanada keypti héðan 60% meira en 2013.
Unnið upp úr gögnum frá Hagstofunni