Beðið eftir frumvarpi

Enn hefur fiskveiðistjórnarfrumvarpið ekki litið dagsins ljós
Beðið eftir frumvarpi
Er yfirskrift greinar eftir Örn Pálsson sem birtist í Fiskifréttum 29. janúar sl.
Enn bólar ekkert á frumvarpi sjávarútvegsráðherra um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Frumvarpið var boðað á síðasta þingi og nú aftur sl. haust.  Hvort eitthvað gerist á næstu vikum skal ósagt látið, en eins og áður hefur verið sagt ætlar sjávarútvegsráðherra að leggja frumvarpið fram á þessu þingi sem er staðfest í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar.  
ÖP á heimasíðu A.jpg
Eðlilega umfjöllun skortir 
Nánast daglega er hringt á skrifstofu LS og spurt um frumvarpið.  Hvað valdi því að það skuli ekkert sjást til þess. Því gjarnan bætt við hvers vegna drög að frumvarpinu séu ekki birt á vefnum og kallað eftir athugasemdum við það áður en það er endanlega lagt fram. Þannig væri búið að marglesa þann texta sem endanlega liti dagsins ljós og koma að nauðsynlegum athugasemdum, sem mundi flýta fyrir umfjöllun í atvinnuveganefnd þingsins. Með slíkri forumsögn væri einnig komið til móts við þá gagnrýni að ekki hafi verið haft samráð við undirbúning og endanlega útgáfu. Ég álít að með slíkri aðferðarfræði sem er í auknum mæli að ryðja sér til rúms væri hægt að ná betri sátt um frumvarpið.  
Hvers vegna eru
drög að frumvarpinu
ekki birt á vefnum og kallað
eftir athugasemdum áður en  
það er endanlega lagt fram?
Nefna má nokkur frumvarpsdrög sem hafa verið sett í slíkan farveg: Drög að lagafrumvarpi um þjóðskrá, frumvarp til laga um breytingar á lögum vatnsveitur sveitarfélaga, frumvarpi til laga um breytingu á höfundalögum, frumvarpi til laga um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum, svo eitthvað sé nefnt.
Yfirlýsingar sjávarútvegsráðherra
En við hverju má búast í frumvarpi ráðherra?  Eftirfarandi hefur komið fram í ræðum sem ráðherra hefur haldið og þingmálaskrá 2014-2015:
Tryggja fyrirsjáanleika með tilteknum afnotatíma (á stofnfundi SFS 31. okt. 2014)
Tryggja tekjur ríkisins af ráðstöfun réttinda (á stofnfundi SFS)
Tryggja gegnsærri og aðgengilegri viðskipti með aflaheimildir (á stofnfundi SFS)
Að byggðasjónarmið séu höfð til hliðsjónar, án þess að fórna möguleikum til hagræðingar 
        (á stofnfundi SFS)
Öll kvótaviðskipti fari fram í gegnum opinberan tilboðsmarkað, eins konar kvóta þing 
        (aðalfundur LS 21. okt. 2014)
Á Íslandi á að vera öflug smábátaútgerð (aðalfundur LS 21. okt. 2014)
Fyrirhugað er að ráðherra leggi fram þingsályktun um ráðstöfun og aflamagn þeirra 5,3% 
        sem fara í „pottana á vorþingi 2015 (úr nefndaráliti atvinnuveganefndar 16. maí 2014 og 
        ræða SIJ á Alþingi 9. október 2014). 
Stuðst verður áfram við þau félagslegu, byggðalegu og atvinnulegu úrræði sem gildandi 
        fiskveiðistjórnunarlög kveða á um (úr þingmálaskrá 144. löggjafarþings 2014-2015)
Að viðhalda fjölbreyttri flóru sjávarútvegsfyrirtækja hringinn í kringum landið. Allt frá 
        trillukörlum og -kerlingum, litlum bátaútgerðum – allt upp í öflug stórútgerðarfyrirtæki sem 
        eru leiðandi í nýjustu tækni og teljast meðalstór á heimsvísu (úr ræðu á Sjómannadeginum 
        2014)
Samningsbundin réttindi um nýtingu aflaheimilda taki við af varanlegri úthlutun (úr ræðu á 
        Sjómannadeginum 2014)
Að fiskurinn í sjónum sé sameiginleg auðlind allrar þjóðarinnar (úr ræðu á 
        Sjómannadeginum 2014)
Að sjávarútvegurinn skuli leggja sitt af mörkum til samfélagsins í formi sérstaks leigugjalds 
        og gjalda sem taki mið af afkomu greinarinnar (úr ræðu á Sjómannadeginum 2014)
Leyfilegum heildarafla verði skipt annars vegar til handhafa samninganna og hins vegar í 
        sérstakan pott sem nýttur verður til ráðstöfunar til atvinnu-, félags- og byggðaúrræða. 
        Skiptingin í þessa flokka gæti verið í takt við skiptinguna eins og hún er í dag (á ársfundi 
        FFSÍ 28. nóv. 2013).
Ofanritað ætti að gefa nokkuð góðar vísbendingar um efni væntanlegs frumvarps.
Afstaða smábátaeigenda

Á smábátaeigendum brennur hvað mest hvernig fyrirkomulag strandveiða, línuívilnunar og byggðakvóta verður.  Komið hefur fram að engar meiriháttar breytingar skuli verða á yfirstandandi fiskveiðiári.  Það hefur gengið eftir með byggðakvótann, en ekki hvað varðar breytingar á ýsuveiðiheimildum til línuívilnunar.  Strandveiðar koma örugglega inn í umræðuna, en þar er krafa LS að aflétta skuli viðmiðun á heildarafla til að koma í veg fyrir ótímabærar stöðvanir veiða í hverjum mánuði.  Að öðru leyti verði fyrirkomulag strandveiða óbreytt.  Aflaþak í hverri veiðiferð 650 þorskígildi, heimilt að róa 4 virka daga í viku á tímabilinu maí til ágúst, svæðaskipting, o.s.frv. Krafa LS er sanngjörn þegar litið er til þeirra aukningar í þorski sem orðið hefur frá því strandveiðar hófust árið 2009 og hversu vel veiðunum hefur verið tekið af hálfu söluaðila á ferskum fiski.
Þá er afar brýnt að auka vægi umhverfisvænna veiða með því að línuívilnun nái til allra dagróðrabáta. LS mun knýja á um að ákvæði um slíkt verði inni í boðaðri þingsályktun.
Stefna LS varðandi byggðakvóta er einnig skýr.  Að hann verði eingöngu nýttur af dagróðrabátum og úthlutað til sveitarfélaga sem noti hann til ívilnunar á kvóta við löndun. 
Frjálsar makrílveiðar smábáta

Eitt er það mál sem ekki hefur verið minnst á í þessari skoðunargrein.  Veiðar á makríl.  Í áðurnefndri þingmálaskrá kemur fram að afgreiða eigi frumvarp til laga um hlutdeildasetningu makríls. Þar er gert ráð fyrir að makrílstofninn verði hlutdeildarsettur. Sjávarútvegsráðherra hefur sagt að hann vilji stjórna makrílveiðum smábáta með öðrum hætti en stærri skipa. Landssamband smábátaeigenda hefur hafnað allri kvótasetningu á makrílveiðar smábáta og krefst þess að veiðarnar verði gefnar frjálsar. Bent er m.a. á að veiðisvæði þeirra sé innan þess svæðis sem stærri skipum er leyfilegt að nýta, veiðarnar séu stundaðar með umhverfisvænum hætti, gæði hráefnis séu gríðarleg – t.d. að hver og einn fiskur blóðgast við aðskilnað frá öngli, kæling er framkvæmd samstundis.
Það er von mín að óbirt frumvarpsdrög verði sem fyrst gerð opinber þannig að málefnið fái vandaða og góða umfjöllun.
  
Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.