Aðeins tveir smábátar á síld

Síldveiðum smábáta á yfirstandandi fiskveiðiári lauk formlega miðvikudaginn 18. febrúar.  Þá gaf sjávarútvegsráðuneytið út reglugerð sem bannaði allar veiðar innan brúar í Kolgrafafirði.  
Síldveiðar smábáta gengu illa þetta árið.  Aðeins tveir bátar Kiddi HF og Jón Pétur RE stunduðu veiðar og var afli þeirra samanlagt 50 tonn.  Þetta er gríðarleg niðursveifla frá fiskveiðiárinu 2013/2014 þegar síldarafli smábáta varð 801 tonn.   Þá stunduðu veiðarnar á fjórða tug báta og hefðu við frjálsar veiðar getað veitt mun meira.   
Ástæður lítils áhuga fyrir veiðunum voru nokkrar.
Nefna má óskiljanlega ákvörðun atvinnuveganefndar Alþingis sl. vor að hækka gjald fyrir síld um 23% á sama tíma og verð fór lækkandi á síldarmörkuðum.  Með því varð tryggt að veiðarnar yrðu ekki stundaðar á þessu fiskveiðiári með viðunandi hagnaði.
Þá lét náttúran ekki að sér hæða þar sem síldin gekk ekki inn í Breiðafjörð með sama hætti og undanfarin ár.  Hún lét það þó ekki hjá líðast að synda inn í Kolgrafafjörð.  Þar hafa verið stórir og góðir flekkir frá því í haust, síld sem hefur þar vetursetu.  Veiðisvæði bátana var því eingöngu innan brúar við Kolgrafafjörð, en eins og fram hefur komið er innsigling þar afar erfið og áhættusöm.
Kolgrafafjörður.jpg
Nú hefur Kolgrafafirði verið lokað fyrir öllum veiðum.  Það er gert að tillögu Hafrannsóknastofnunar í því skyni að rannsóknir sem þar fara fram verði ekki fyrir truflun.  Í firðinum eru dýr og viðkvæm mælitæki og því talsverð áhætta að stunda þar veiðar án þess að trufla ekki yfirstandandi rannsóknir.