Grásleppuvertíðin hefur farið óvenju vel af stað. Veiðin nú jafngildir um 2.600 tunnum af hrognum. Það er um 23% þess magns sem leyfilegt er að veiða á vertíðinni.
Aflinn er mestur hjá vopnfirskum grásleppubátum, 350 tunnur. Húsavík og Siglufjörður eru næstir með um 100 tunnum minna.
Samanborið við sama tíma í fyrra er veiðin nú rúmlega helmingi meiri.
Það sem af er vertíð hefur grásleppu verið landað á 25 stöðum og skráður afli er hjá 120 bátum. Tveir bátar eru komnir með yfir 40 tonn, Sæborg NS á Vopnafirði 42,842 tonn og Finni NS Bakkafirði 41,969 tonn.