Mikilvægi strandveiða

Sjöunda strandveiðiárið runnið upp
Mikilvægi strandveiða
Er yfirskrift greinar eftir Örn Pálsson sem birtist í Fiskifréttum í dag 7. maí. 
Strandveiðar voru settar inn í lagaumhverfi stjórnar fiskveiða 18. júní 2009. Þær hófust í júní sama ár og tóku alls 500 handfærabátar þátt í veiðunum.  Reynsla fyrsta árs sýndi að rétt væri að lögfesta þær sem gert var í maí 2010. Hinn 4. maí sl. hófst því sjöunda tímabil strandveiða.  

Svæðaskiptingin
Fyrirkomulag veiðanna hefur nánast verið óbreytt frá upphafi.  
Veiðisvæðin eru fjögur talsins og eru auðkennd með upphafsstöfunum stafrófsins.
Svæði A – nær frá Arnarstapa á Snæfellsnesi til og með Súðavíkurhreppi.  Eigendur strandveiðibáta sem eiga þar heimilisfesti fá þar veiðileyfi, en slík almenn regla gildir um strandveiðar. B svæðið tekur þar við og nær til Grýtubakkahrepps í austanverðum Eyjafirði.  C svæðið afmarkast af Þingeyjarsveit og Djúpavogshreppi og svæði D dekkar Suðurland og Faxaflóa.
ÖP á heimasíðu A.jpg
Reglur um veiðarnar
Heildarafla sem ætlaður er til veiðanna, nú 8.600 tonn, er deilt á svæðin sem síðan skiptist á hvern mánuð.  Þegar afla hvers mánaðar er náð eru veiðar stöðvaðar.  Róðrardagar eru 4 í viku, mánudagur – fimmtudags, þar sem afli í hverri veiðiferð má ekki fara umfram 650 þorskígildi, umreiknað í óslægðan þorsk svarar það til 774 kílóa.  Auk þessara takmarkana má hver veiðiferð ekki standa lengur en 14 klukkustundir og fjöldi handfærarúlla um borð að hámarki fjórar.
Auðgar útgerðarflóruna
Strandveiðar hafa auðgað íslenska útgerðarflóru og endurheimt líf og fjör í hafnir hinna dreifðu byggða. Þær hafa uppfyllt kröfur um að heimilt sé að fara á sjó án þess að þurfa að kaupa sér veiðiheimildir frá þeim sem hafa veiðirétt í formi aflahlutdeilda. Fjöldi strandveiðibáta ár hvert gefur skýr skilaboð um að þörf hafi verið á þessu fiskveiðikerfi, en flestir voru bátarnir á veiðum árið 2012, alls 759.
Screen Shot 2015-05-07 at 14.07.37.png
Aflabrögðin best á A svæði
Á þeim 6 árum sem strandveiðar hafa verið stundaðar er samanlagður afli kominn í 45 þús. tonn, þar af 38 þús. tonn af þorski. Heildarfjöldi sjóferða á bakvið þennan afla er 82.505. Meðalafli í hverjum róðri er því 546 kíló. Á síðasta ári var meðalafli á bát sá hæsti frá upphafi veiðanna eða 13,4 tonn.  Afli í hverjum róðri var hins vegar mestur árið 2010, 601 kg.   Af einstaka svæðum eru aflabrögð best á svæði A.
Kærkomin viðbót
Fiskvinnslan hefur notið góðs af afla strandveiðibáta.  Mikil vakning hefur verið meðal sjómanna að vanda til alls frágangs á aflanum og er innra eftirlit og metnaður meðal þeirra mikill. Það hefur gert afla frá strandveiðibátum eftirsóknarverðan og er hann kærkominn viðbót við annan afla yfir sumartímann. Þannig hefur hann fjölgað sumarstörfum í fiskvinnslu og hjá þjónustuaðilum og tryggt betur afhendingaröryggi á ferskum fiski allan ársins hring.
  
Screen Shot 2015-05-07 at 13.07.41 (1).jpg


Góð byggðaaðgerð

Berlega hefur komið í ljós þegar reynslan af strandveiðum er skoðuð hversu gríðarlega góð byggðaaðgerð þær eru. Hreinlega allt breytist. Það fjölgar á staðnum sem kallar á aukna þjónustu, ferskleiki færist yfir höfn og hafnarstarfsemi sem sýnir enn betur nauðsyn hennar, umferð verður meiri og allt mannlíf fær á sig ferskari blæ.  Þá aukast tekjur bæjarfélagsins og þjónustuaðila.  Verslun, veitingastaðir, sjoppan, sundlaugar, smiðjan og fjölmargir aðrir fá allir sinn skerf með útgerð bátanna.
2.000 tonnum verði bætt við
Landssamband smábátaeigenda hefur í allnokkurn tíma kynnt tillögu til að efla strandveiðar enn frekar. Hún byggir á því að bætt verði 2.000 tonnum við heildaraflaviðmiðun þeirra. Viðbótin yrði fyrst og fremst látin á svæði A og B þar sem aflahámarki hvers mánaðar hefur verið náð. Svæði A hefur fyrst svæða lokast í hverjum mánaðanna maí – ágúst.  Af 64 dögum tímabilsins  kláraðist leyfilegur afli á 29 róðradögum og eru þá ótaldir dagar þegar ekki gaf á sjó vegna veðurs. Á svæði B voru dagarnir 45 talsins, 55 á svæði C og á svæði D kom ekki til stöðvunar veiða vegna aflatakmarkana.
Hvar á að taka aflann?
Þegar krafa sem þessi er kynnt bergmálar spurningin: Hvar á að taka aflann?  Góður forystumaður í þjóðmálum sem nú er látinn svaraði þeirri spurningu alltaf á einn veg: „Úr sjónum, sem er auðvitað hið eina sanna svar. Það kallast hins vegar útúrsnúningur þegar LS er spurt af þeim ábyrgu. Tillaga LS svarar hins vegar spurningunni, aflinn komi frá eftirfarandi þáttum sem nú eru hlutar pottanna: 
Byggðakvóti – reglum verði breytt þannig að hann verði eingöngu nýttur af dagróðrabátum.   
        Hluti heimilda sem stærri skip hafa fengið gangi til strandveiða.
Þorskeldi – hætt verði að úthluta árlega 500 tonnum til tilrauna við þorskeldi.  Aflinn verði 
        nýttur af strandveiðiflotanum.
Skel- og rækjuuppbætur – dregið verði úr þessum bótum með því að nýta þær frekar til 
        strandveiðibáta.

Hvet bæjar- og sveitarstjórnir
LS hefur fengið góðan hljómgrunn við tillögunni og er krafa félagsins sú að hún verði útfærð í þeirri þingsályktun sem sjávarútvegsráherra er skylt að leggja fyrir Alþingi fyrir þinglok nú í maí.  Ég hvet hér með bæjar- og sveitarstjórnir sem hagsmuna hafa að gæta að styðja tillögu LS og tryggja henni brautargengi á Alþingi.   
Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.