Smábátaeigendur uggandi

Tugaprósenta hækkun veiðigjalda í bolfiski sem boðaðar hafa verið fara illa í margan trillukarlinn.  
Eins og komið hefur fram er í frumvarpi um veiðigjald gert ráð fyrir að fastur afsláttur falli niður á næsta ári, en kvikni svo aftur 2016/2017.  Þá verði hann aðeins kr. 100 þúsund að hámarki og nái eingöngu til þeirra sem greiða lægra en 1 milljón í veiðigjald.
  
Atvinnuveganefnd Alþingis hefur frumvarpið nú til yfirferðar og hlýtur þessi breyting að standa í nefndinni þar sem afleiðingar af því óbreyttu mundu hækka veiðigjald þeirra sem landa á bilinu 10 – 60 tonn af þorski um 127%.  Það er útgerðir sem minnstan afla hafa.  
Dæmi: Veiðigjald fyrir 30 tonn af slægðum þorski 
                fer úr kr. 269.400- í kr. 611.400-.
Innheimt af lönduðum afla

Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir staðgreiðslu veiðigjalda, að greitt verði mánaðarlega.  Því fylgir önnur grundvallarbreyting sem felst í að upphæð veiðigjalds miðast ekki lengur við úthlutaðan afla, heldur það sem veitt er.  Alls óvíst er hvaða áhrif það hefur á kvótaleigu, en væri formúlu fylgt ætti hún að lækka um þá upphæð sem greitt er í veiðigjald fyrir viðkomandi tegund.
Hækkun – lækkun

Þær tegundir sem hækka mest á milli ára eru humar um 106%, langlúra 100%, gulllax 95%, grálúða 91%, keila 75%, skötuselur 63%, grásleppa 57% og skarkoli 54%.
Tegundir sem frumvarpið gerir ráð fyrir að beri lægra veiðigjald á næsta fiskveiðiári eru:  Kolmunni lækkar um 37%, úthafskarfi um 15%, loðna um 8% og síld um 2%.
Sjá nánar töflu um veiðigjald.pdf  ath. fyrir yfirstandandi fiskveiðiár hefur almennu veiðigjaldi og sérstöku veiðigjaldi verið steypt saman í eina tölu.