Halldór Ásgrímsson

Kveðjuorð frá Landssambandi smábátaeigenda
Útför Halldórs Ásgrímssonar fór fram í dag að viðstöddu fjölmenni.  Halldór var sjávarútvegsráðherra frá 1983 til 1991.  Við mótun sjávarútvegsstefnu lagði Halldór ríka áherslu á samráð við hagsmunaaðila.  Hann greindi það fljótt að raddir trillukarla heyrðust hvaðanæva af landinu og var erfitt að henda reiður á sameiginlega stefnu þeirra.  Við stofnun Landssambands smábátaeigenda var Halldór fljótur að átta sig á að þar gæti orðið til vettvangur sem mundi koma fram fyrir hönd smábátaeigenda á landsvísu.  Halldór greiddi því götu þeirra aðila sem fremstir stóðu í stofnun félagsins.   
Sjaldan launar kálfur ofeldið, þar sem Landssambandið náði fljótt gríðarlegum styrk og veitti ráðherranum öflugt aðhald.  Þrátt fyrir að mikið bæri á milli aðila á þessum tímum var þolinmæði Halldórs óþreytandi sem færði aðila alltaf nær samkomulagi.  Halldór sem sjávarútvegsráðherra var þá sá aðili sem kláraði málin og færði í formi frumvarpa til Alþingis.  
Á Alþingi kom vel í ljós staðfesta Halldórs en um leið áheyrn á það sem betur mátti fara.   Þrautseigja hans var þar heldur ekki langt undan sem gerði honum kleift að ná málum gegnum Alþingi.   Þessir þrír eiginleikar áunnu Halldóri virðingu jafnt hjá samherjum sem andstæðingum.
Landssamband smábátaeigenda þakkar Halldóri Ásgrímssyni fyrir hans framlag til smábátaútgerðar.   Eiginkonu og öðrum aðstandendum Halldórs vottar LS samúð sína.
Örn Pálsson 
framkvæmdastjóri