LS fundar með atvinnuveganefnd Alþingis

Eins og komið hefur fram hér á síðunni hafa alls 5 bæjarfélög lýst yfir stuðningi við að auka strandveiðar.   Þau eru:  Vesturbyggð, Fjallabyggð, Ísafjarðarbær, Bolungarvík og Grundarfjörður.   
Þingsályktun um pottana

Atvinnuveganefnd Alþingis hefur nú til meðferðar þingsályktun frá sjávarútvegsráðherra um áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla skv. 5. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða.
Í þeirri grein er fjallað um veiðiheimildir til strandveiða, línuívilnunar, byggðakvóta, sérstaka byggðakvóta Byggðastofnunar og skel- og rækjubætur (gjarnan kallaðir pottarnir).  
Veiðiheimildir í pottum eru þorskur, ýsa, ufsi og steinbítur.  5,3% úthlutunar í þessum tegundum renna beint í þá og það sem uppá vantar við það magn sem kveðið er á um í lögum kemur í gegnum skiptimarkað Fiskistofu. 
Á yfirstandandi fiskveiðiári er samanlagður afli í fyrrgreindum fjórum tegundum alls 27.001 tonn sem skiptist þannig:
Screen Shot 2015-06-04 at 13.51.35.png
Þingsályktunin er tilkomin vegna ákvæðis í fyrrgreindri 8. gr. þar sem ráðherra er skylt eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti að leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar áætlun um meðferð og ráðstöfun veiðiheimilda sem fara í pottana.   
Í 1. mgr. þingsályktunarinnar er þessa tímaramma getið en síðar í henni er tekið fram að hún gildi aðeins í eitt ár, fyrir fiskveiðiárið 2015/2016.  Ástæður þessa eru að ekki hefur unnist tími til að leggja mat á hvernig hver og einn pottur hefur gagnast þeim markmiðum sem honum er ætlað.  Gert er ráð fyrir að Háskólinn á Akureyri muni gera úttekt á þessum þætti á næstu mánuðum. 
Aukning ekki komin í höfn

Það veldur LS miklum vonbrigðum að í þingsályktuninni er ekkert ákvæði sem kveður á um aukið aflamagn til strandveiða, hvorki á yfirstandandi vertíð né á strandveiðum 2016.  
Löndun Patró strandv. 2013.jpg




Á fundi sem LS átti með atvinnuveganefnd Alþingis fyrr í dag áréttaði félagið kröfur sínar um að nú þegar yrði bætt við 2.000 tonnum til strandveiða.  Afli til þess mundi koma frá því sem fyrirhugað var til áframeldis í þorski (500 tonn), með breyttum á reglum um almennan byggðakvóta sem yrði eingöngu ætlaður til dagróðrabáta og frá skel- og rækjuuppbótum frá þeim aðilum sem ekki höfðu látið frá sér veiðiheimildir þegar þeir fengu leyfi til rækju- og skelveiða.  
Greinilegt er að Landssambandið á stuðning víða við hugmyndum sínum til eflingar strandveiða, auk framangreindra og margra annarra sveitarfélaga er hann að finna á Alþingi, ferðaþjónustunni og meðal almennings.  Það er því  brýnt að nýta þennan meðbyr til að koma strandveiðum í ásættanlegan farveg.
Sjá þingsályktun í heild: