Í umsögn Landssambands smábátaeigenda um þingsályktunartillögu sjávarútvegsráðherra um ráðstöfun aflamagns sem fara í pottana (strandveiðar, línuívilnun, byggðakvóta, rækju og skelbóta) er ítrekuð tillaga félagsins um viðbótaheimildir uppá 2.000 tonn til strandveiða.
Þingsályktunin sem gilda á fyrir næsta fiskveiðiár gerir ekki ráð fyrir aukningu veiðiheimilda til strandveiða. Stuðningur við tillögu LS hefur nú borist frá 7 byggðarlögum og vitað er að fleiri eiga eftir að bætast í þann hóp.
Umsögn LS er mjög ítarleg og eru félagsmenn hvattir til að kynna sér hana og leggja sitt að mörkum til að efni hennar nái fram að ganga. Þingsályktunin er nú til meðferðar í atvinnuveganefnd Alþingis.