LS óskar eftir fundi með forsætisráðherra

Degi fyrir þjóðhátíð undirritaði sjávarútvegsráðherra reglugerð um stjórn makrílveiða íslenskra skipa 2015.  Reglugerðin er óbreytt frá síðasta ári að einu atriði undanskildu.  Það er veiðifyrirkomulag smábáta sem veiða makríl með línu eða handfærum.  Í stað frjálsra veiða innan ákveðins magns, hefur veiðimagni verið skipt milli 192 báta, það er allra þeirra sem veitt hafa makríl á tímabilinu 2009 – 2014.  Aflamark takmarkar þannig afla hvers og eins, enda óheimilt að sameina veiðiheimildir.   
  
Atvinnuveganefnd Alþingis hefur nú til meðferðar frumvarp um stjórn veiða á NA-Atlantshafsmakríl.  Í frumvarpinu er ákvæði sem boðar hið nýja veiðikerfi sem nú er komið inn í reglugerð.  
Kvótasetningin kom smábátaeigendum gjörsamlega á óvart enda málið enn til meðferðar hjá Alþingi.  Líklega er það einsdæmi í sögu stjórnsýslunnar að ákvæði úr frumvarpi sé sett í reglugerð.  Beðið hefur verið eftir að Alþingi afgreiddi það sem lög. Þó hér hafi ekki verið um hlutdeildasetningu að ræða breytir það engu þar sem aðferð við kvótasetningu er tekin beint úr ákvæði frumvarpsins.  Þegar framangreint er haft til hliðsjónar var því ekki hægt að álykta annað en veiðikerfi smábáta í makríl yrði óbreytt í ár
Í reglugerðinni er framsal óheimilt sem er í raun forsenda kvótasetningar.  Ákvörðunin hefur því varla átt sér langan aðdraganda þar sem forsenda fyrir kvótasetningu er tilfærsla heimilda.  
 
Vegna hinnar grafalvarlegu stöðu sem upp er komin hefur landssambandið óskað eftir fundi með forsætisráðherra þar sem honum verður gerð grein fyrir afleiðingum reglugerðarinnar.  Í bréfinu segir m.a. þetta:
„Reglugerð 532/2015 hefur leitt til þess að gripið er hastarlega inn í lífsafkomu hundruða einstaklinga, uppgangur, hressleiki, ánægja og gleði er ekki lengur hjá þeim, heldur eru hornin látin tala með tilhlýðanlegum pirringi og depurð.  LS telur að við inngrip af þessu tagi þurfi alltaf að meta hvað ávinnst við breytingu og hverju er verið að fórna.