Óánægja með upphafstíma dragnótaveiða í Faxaflóa

Þorvaldur Gunnlaugsson formaður Smábátafélags Reykjavíkur var ómyrkur í máli þegar hann heyrði af nýjustu embættisfærslu sjávarútvegsráðherra.  Með útgáfu reglugerðar nr. 616 – sem birt var í Stjórnartíðindum 8. júlí sl. – hefur ráðherra ákveðið að heimila veiðar með dragnót í Faxaflóa frá og með 15. júlí nk.  Undanfarin ár hafa veiðar hafist 1. september og hefur friður ríkt um þann upphafstíma þrátt fyrir megna óánægju almennt um dragnótaveiðar.
Þorvaldur sagði ráðherra kasta stríðshanskanum í andlit trillukarla sem sótt hafa í Faxaflóann yfir sumartímann.  Ákvörðunin mundi skaða útgerð þeirra.  Einnig mundi þetta leiða til aflatregðu hjá strandveiðibátum og þeim fjölmörgu sportveiðimönnum sem róa í Flóann á þessum tíma til að veiða sér í soðið.   
Þorvaldur sagðist vera hugsi yfir vinnubrögðum ráðherra og spyrja þeirrar spurningar, hvers vegna ráðherra væri að gera þessar breytingar, þegar vitað er að sumarið er sá tími sem best er að stunda handfæraveiðar á smábátum.