Það bar hæst á fundi stjórnar LS sem haldinn var 16. og 17. júlí sl. að Halldór Ármannsson formaður tilkynnti að hann mundi ekki gefa kost á sér til endurkjörs. Halldór sem lýkur sínu öðru ári sem formaður á næsta aðalfundi LS sagðist hafa haft einstaklega gaman af að starfa sem formaður, en nú yrði að fara að sinna fyrirtæki þeirra feðga betur og því gott að láta staðar numið. Hann sagði formannsstarfið hafa verið lærdómsríkt og gefið honum skýr skilaboð um að trillukarlar mættu aldrei sofna á verðinum.
Aðalfundur LS sá 31. í röðinni verður haldinn 15. og 16. október. Halldór sagðist vilja gefa þeim sem hygðust gefa kost á sér í formannsembættið nægan tíma og því hefði hann ákveðið að tilkynna ákvörðun sína með góðum fyrirvara.