Makrílveiðar smábáta eru í mikilli óvissu þessa dagana. Aðeins 8 bátar eru byrjaðir veiðar á móti 80 á sama tíma í fyrra. Aflinn er að sama skapi ekki svipur hjá sjón 25 tonn á móti 1.356 tonnum. Staðan sem upp er komin er graf alvarleg og mikið áhyggjuefni og sýnir glöggt að ekki allt gull sem glóir.
Markaðir fyrir makríl frá Íslandi eru afar erfiðir og óvíst um sölu á vertíðinni. Verð sem heyrst hafa fyrir færaveiddan makríl eru helmingi lægri en á sama tíma í fyrra. Takist söluaðilum ekki að ná hærra verði er ljóst að makrílveiðar smábáta verða ekki svipur hjá sjón miðað við undanfarin ár, þar sem veiðarnar standa vart undir kostnaði.
Smábátaeigendur halda því að sér höndum og bíða eftir að staðan vænkist eitthvað samfara því sem makríllinn stækkar og nær góðri fituprósentu.
Alls er búið að landa 40 þús. tonnum af makríl það sem af er vertíð á móti 58 þús. á sama tíma í fyrra.