Milljarðar í húfi – skýrsluna á borðið

Þorskafli 2015/2016

Milljarðar í húfi – skýrsluna á borðið
Er yfirskrift greinar eftir Örn Pálsson sem birtist í Fiskifréttum 23. júlí sl.
Þorskafli til úthlutunar fyrir fiskiveiðiárið 2015/2016 verður 239 þúsund tonn sem er 23 þúsund tonna aukning (10,6%) frá því sem nú er.  Útreikningur heildaraflans er meðaltal af samanlögðu aflamarki á yfirstandandi fiskveiðiári og 20% af veiðistofni – aflaregla sem nýtingarstefna stjórnvalda byggist á:  
(216.000 + 0,2 · 1.302.000) / 2 
Endurskoðun aflareglu

Undanfarin misseri hefur staðið yfir nefndarstarf um endurskoðun á aflareglu.  Landssambandi smábátaeigenda hefur verið tilkynnt að starfi nefndarinnar sé lokið og niðurstaðan hafi verið að leggja ekki til neinar breytingar.  Sjávarútvegsráðherra ákvað að fylgja ráðum nefndarinnar og tilkynnti ákvörðun sína á ríkisstjórnarfundi fyrir rúmum mánuði þann 9. júní sl.
Árleg endurskoðun heimil

Á fundi Hafrannsóknastofnunar með hagsmunaaðilum 11. júní bar aflaregluna á góma.  Þar greindi forstjóri stofnunarinnar frá því að aflareglan væri ekki bundin til 5 ára, henni væri hægt að breyta eftir eitt ár eða hvenær sem er.  Samkvæmt því hafa einhverjar breytingar verið gerðar, þar sem áður var óumbreytanlegt 5 ára ferli að ræða.
ÖP 05-2009.jpeg

Athugasemdum ekki svarað

Í umsögn LS til nefndar um endurskoðun aflareglu kom fram gagnrýni á hana og ábendingar um hvað mætti betur fara.  Það var gert þar sem engar vísbendingar höfðu komið fram um að stjórnvöld ætluðu að byggja á einhverri annarri aðferð við ákvörðun um árlegan heildarafla.
Meðal þess sem LS benti á að taka ætti inn í heildarferlið var eftirfarandi:
a. Að reynsla og þekking sjómanna 
        verði sett inn í þann 
        þekkingarbrunn sem leitað er í 
        þegar lagt er mat á stærð 
        veiðistofns.
b. Að lagt verði mat á hvernig samsetning stofnsins sé hverju sinni.  T.d. að nú ber 8 ára og 
        eldri fiskur uppi stofninn.  Rannsóknir hafa sýnt að hrogn úr eldri fiski gefa meiri möguleika á 
        góðri nýliðun en úr þeim sem yngri eru.  
c. Gríðarlegur vöxtur hrygningarstofnsins á undanförnum árum.  Við ákvörðun á heildarafla 
        verði meira tekið tillit til stærðar hrygningarstofns.  Bent skal á að nú er 5 ára meðaltal hans 
        440 þús. 
d. Óskað var eftir bakreikningum þekktra stærða til ársins 2014 sambærilegum og byggt var á 
        í skýrsludrögunum til framtíðar.  Með því fengist gilt próf á aflaregluna, hver mismunur væri 
        á reiknaðri stærð stofnsins og því sem mælingar hefðu gefið.
Í athugasemdum LS var sérstaklega óskað upplýsinga um vægi þátta b og c í útreikningum, auk þess sem fram kemur í d-lið.
Skautað fram hjá mikilvægri skýrslu

Til viðbótar gagnrýndi LS að ekki hefðu verið teknar inn ábendingar sem komu fram í skýrslu samráðsvettvangs sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um nýtingu þorsks við Ísland.  Skýrslunni var skilað í júní 2011 og er þar gríðarlegt magn upplýsinga um þessi mál.  
LS vakti sérstaka athygli á tveimur köflum í inngangi skýrslunnar:
„Í skipunarbréfi samráðsvettvangsins var tilgreint að við þær aðstæður sem nú eru í efnahags- og atvinnulífi þjóðarinnnar sé eðlilegt að menn horfi til þess hvort hægt sé að auka afrakstur fiskveiðiauðlindarinnar. Einnig hafa verið skiptar skoðanir um nýtingarstefnuna í þorskveiðum og þá aflareglu sem nú er miðað við. Markmið vinnu vettvangsins er að ræða og meta núverandi nýtingarstefnu og aflareglu sem Hafrannsóknastofnunin byggir sína ráðgjöf á, og jafnframt að komast að því hvort rétt sé að leggja til breytingar á þessum þáttum og mögulega bæta enn frekar grunn þeirra. Taka skal mið af líffræðilegum, hagfræðilegum og félagslegum þáttum.
og síðar í inngangnum um efni skýrslunnar 
„er vikið að mikilvægi fiskveiðiauðlindarinnar fyrir Ísland, ákveðnu forystuhlutverki Íslendinga við mótun aðþjóðlegra sjónarmiða til nýtingar hafsins, alþjóðasjónarmiðum og -samningum um auðlindanýtingu og sérstaklega um nýtingu á fiskstofnum. Þá er fjallað um hvernig aukin afkastageta og tæknivæðing fiskveiða hefur áhrif á nýtingarsjónarmið og hvernig þróun neyslu og markaða gerir kröfu til nýtingarstefnu.
LS óskaði eftir skýringum á því hvers vegna nefndin hefði skautað fram hjá skýrslunni.
Slóðin að skýrslunni er:  http://www.atvinnuvegaraduneyti.is/media/2011/Skyrsla-samradsv.pdf  
Kallað eftir upplýsingum

Skemmst er frá því að segja að nefndin sá ekki ástæðu til að svara þessum spurningum LS, hvað þá að halda fund um málefnið og kynna lokadrög skýrslunnar til ráðherra.  Það er því afar einkennilegt að skýrsla nefndarinnar hafi enn ekki verið gerð opinber þar sem hér er um gagnrýna ákvörðun að ræða sem skiptir lífskjör þjóðarinnar gríðarlegu máli.
Höfundur er framkvæmdastjóri
Landssambands smábátaeigenda