Vonbrigði með makrílinn

Þungt hljóð er í smábátaeigendum sem stundað hafa makrílveiðar undanfarin ár.  Flestir höfðu búist við að hér væri komin tegund sem hægt væri að byggja á til framtíðar.  En það er nú aldeilis ekki og hjálpast þar tvennt til. 
 
Áður en lengra er haldið skal því þó haldið til haga að í öllum umsögnum LS um framtíðarveiðifyrirkomulag á makríl var bent á að ekkert væri öruggt í þeim efnum þar sem hér væri um hverfula tegund að ræða og gæti þess vegna horfið jafn skjótt og hún lét sjá sig.
Stærsta áhyggjuefnið nú eru markaðsmálin.  Færri hafa sýnt áhuga á að kaupa væntanlegan afla vegna gríðarlegrar óvissu á mörkuðum.  
Hins vegar – sem menn telja léttvægara – að makríllinn virðist ekki koma í eins miklu magni upp að ströndinni og verið hefur.   
Það er aftur á móti jákvætt að makríllinn nú er mun stærri en áður hefur sést á þessum tíma sem ætti að hjálpa til við sölu aflans.
Aðeins 19 smábátar hafa landað afla það sem af er þessari vertíð og alls 191 tonni.  Aflahæstur er Brynja II SH 237 með 32 tonn, en á sama tíma í fyrra var afli Brynju kominn í 106 tonn.
Þegar horft er til síðasta árs höfðu 104 bátar hafið veiðar 10. ágúst og voru þeir búnir að landa alls 3.032 tonnum.  Það er því ekki að furða að vonbrigðin séu mikil hjá makrílsjómönnum um þessar mundir.  
Að sögn væntanlegra kaupenda á makríl leggja þeir allt kapp á að ná sölusamningum og eru alls ekki úrkula vonar um slíkt náist innan tíðar.
Alls er nú búið að veiða 75 þús. tonn af makríl hér við land sem er 11 þúsund tonnum minna en á sama tíma í fyrra.