Sjávarútvegsráðuneytið hefur gefið út reglugerð um breytingu á reglugerð um stjórn makrílveiða íslenskra fiskiskipa árið 2015. Breytingin snýr að 3. gr. „Vinnsla til manneldis.
Í stað þess að skylt verði að ráðstafa mánaðarlega a.m.k. 70% af makrílafla einstakra skipa til manneldis, er hlutfallið lækkað í 50%.
Breytingin veldur vonbrigðum þar sem hlutfall makríls til bræðslu hefur minnkað jafnt og þétt á sl. árum. Úr því að vera 100% í bræðslu á fyrsta ári makrílveiða 2007 í 11% á árinu 2014.
Eftir að hafa tekist á örskömmum tíma að færa okkur úr bræðslunni yfir í að fullvinna makrílinn er hér um afturför að ræða. Líta verður á að breytingin sé tilkomin vegna erfiðleika á mörkuðum fyrir fullunninn makríl.
LS er ekki kunnugt um hvaða viðræður hafi átt sér stað áður en sjávarútvegsráðherra tók ákvörðun um að breyta reglugerðinni. Hvort því hafi t.d. verið velt upp hvort við ættum ekki að bregðast við þrengingum á mörkuðum fyrir fullunninn makríl með minni veiði? Á þann hátt hefðum við haldið áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið að hámarka þau verðmæti sem fást úr makrílnum. Einnig hefði verið komist hjá neikvæðri umræðu sem óhjákvæmilega skapast þegar matfiskur er bræddur og seldur sem mjöl.
Talnagögn unnin upp úr
upplýsingum frá Hag- og
Fiskistofu