Á fundi stjórnar Landssambands smábátaeigenda sem greint var frá hér í gær var mikið fjallað um tíðar skyndilokanir á handfæri og reglugerðalokanir á línu og handfæri. Stjórnin fagnar því að sterkir árgangar séu að vaxa upp ef marka má að lokanir endurspegli mikið magn smáfisks.
Stjórn LS hefur af þessu tilefni ákveðið að bein því til sjávarútvegsráðherra að hann feli Hafrannsóknastofnun að endurskoða viðmiðunarmörk til lokunar veiðisvæða.
Núverandi regla kveður á um að sé hlutfall fjölda mældra fiska styttri en 55 cm undir fjórðungi heildarinnar skuli veiðisvæði lokað. Endurskoðun mundi miða að því að stærðarmörk til lokunar verði fiskur sem ekki hefur náð 4 ára aldri á því veiðisvæði sem hann er veiddur. Þannig geti einstök svæði borið mismunandi lengdarmörk.
Þá samþykkti stjórnin að beina því til Hafrannsóknastofnunar að gera breytingar á vinnureglum er varða reglugerðarlokanir á línu eða handfæri. Þegar stofnunin telur að grípa verði til lokana verði þær án undantekninga tímabundnar og gildi aldrei lengur en í 6 mánuði.
Við ákvörðun um afmörkun svæða verði haft samráð við félög smábátaeigenda á viðkomandi svæði.