Himinn og haf á milli hagnaðaraukningar
hjá útgerð og vinnslu
Kjarasamningur undirritaður
Er yfirskrift greinar eftir Örn Pálsson sem birtist í Fiskifréttum 17. september.
Í nokkurn tíma hafa fulltrúar Landssambands smábátaeigenda og Starfsgreinasambandsins ræðst við um gerð nýs kjarasamnings um laun við ákvæðisvinnu við línu og net. Aðkoma LS að málinu voru nýsamþykktir samningar atvinnurekenda og launþega um að lágmarkslaun 1. maí 2018 yrðu 300 þúsund krónur.
Að loknum mörgum fundum þar sem kröfum aðila var velt upp á alla kanta varð niðurstaðan sú að laun í beitningu og uppsetningu neta skildu hækka í fjórum áföngum:
1. 1. maí 2015 um 9,5%
2. 1. maí 2016 um 8,0%
3. 1. maí 2017 um 4,5%
4. 1. maí 2018 um 3,1%
Lágmarkslaun eru nú kr. 236.095 en með framangreindum hækkunum verða þau komin í kr. 300.825.
Ekki fiskvinnsla
SGS byggði kröfur sínar að mestu á hækkunum sem samið hafði verið um við fiskvinnslufólk. LS vildi hins vegar ekki fallast á að störfin sem hér um ræðir væru fiskvinnsla, þótt vissulega væru þau ákvæðisvinna og þannig tengd bónuskerfi vinnslunnar. Þá væri verulegur munur á hvaðan tekjurnar kæmu til greiðslu launa, annars vegar af sölu aflans og hins vegar sölu fullunninnar vöru á erlenda markaði. Vissulega hefði fiskverð hækkað, en tölur sýndu að himinn og haf væri á milli hagnaðaraukningar hjá útgerðinni og vinnslunni. Útfrá þessum forsendum fékkst málið hins vegar ekki verðskuldaða umræðu þar sem jú búið var að semja á öðrum vettvangi um 300 þús. króna lágmarkslaun. Það niðurneglt sem sátt í þjóðfélaginu. Staðan var því ekki árennileg fyrir smábátaeigendur og þeir manna síst mundu gera atlögu að slíkri sátt sem forðaði þjóðfélaginu frá hatrömmum átökum og verkföllum sem enginn veit hvernig hefðu endað.
Samkeppnisstaða riðlast
Í viðræðunum lagði LS fram meðfylgjandi töflu sem sýndi þróun á árlegu meðalverði á óslægðum línuveiddum þorski seldum á fiskmörkuðum og þar sem selt var í beinum viðskiptum. Taflan nær yfir 7 ára tímabil, frá 1. maí 2008 til 30. apríl 2015. Tölurnar voru unnar upp úr upplýsingum á vef Verðlagsstofu skiptaverðs.
Margir sem lesa þetta kasta nú kannski upp þegar hér er komið sögu og milli þess sem þeir kúgast heyrast þeir segja: „Hvaða væl er þetta. Ef þessir aðilar hafa ekki efni á að bjóða sínu fólki 300 þús. eftir þrjú ár, hvað eru þeir þá að standa í þessu? Það eru einmitt þessi viðbrögð sem ég vildi kalla fram.
Því er til að svara að smábátaeigendur munu greiða uppgefin lágmarkslaun. Það er afturámóti aðferðafræðin sem fer í taugarnar á undirrituðum. Að sjávarútvegsfyrirtækin sem bæði eru í útgerð og vinnslu skuli geta stýrt launahækkunum samkeppnisaðilans, í þessu tilfelli um 200 útgerða. Útgerðir sem hafa aðeins tekjur af öðrum þætti þessarar keðju á móti samfellu hins aðilans. Samkeppnisstaða riðlast við slíkan gjörning.
Enn meiri samþjöppun
Afleiðingar þessa gætu orðið enn meiri samþjöppun í útgerð, fækkun þeirra sem stunda eingöngu útgerð. Stefna stjórnvalda er hins vegar ekki í þá áttina. Í stefnuræðu forsætisráðherra sem hann flutti við þingsetningu 8. september sl. sagði hann þetta:
„Í sjávarútvegi munum við leggja áherslu á að halda áfram að byggja upp fiskistofna og stuðla að aukinni verðmætasköpun en vinna um leið gegn samþjöppun í greininni og því að viðhalda störfum í byggðarlögum um allt land.
Landssamband smábátaeigenda mun inna stjórnvöld eftir þessum þætti og benda á leiðir sem koma mega í veg fyrir fyrirsjáanlega samþjöppun vegna ójafnrar samkeppni sem orðið hefur í greininni. Áhersla verður lögð á að stjórnvöld hraði aðgerðum sínum.
Þannig að lesendur fari ekki alveg vopnlausir frá lestri greinarinnar mun LS t.d. leggja áherslu á að aflaheimildir sem Byggðastofnun hefur til ráðstöfunar auk almenns byggðakvóta verði eingöngu nýtt af dagróðrabátum. Úthlutun verði að mestu leyti í formi ívilnunar á kvóta við löndun. Aflinn verði seldur á fiskmarkaði.
Annað atriði sem óhjákvæmilegt er að stjórnvöld komi að er það að línuívilnunarprósenta verði hækkuð og línuívilnun nái til allra dagróðrabáta.
Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.