Grásleppukarlar virði undanþágur

Aðalfundur Smábátafélags Reykjavíkur var haldinn 14. september sl.  
Á fundinum var hávær umræða um grásleppudaga nr. 33, 34 og jafnvel 35.  Hér er átt við að það færist í vöxt að grásleppukarlar láti undir höfuð leggjast að vera búnir að taka upp netin og hættir veiðum á 32. degi grásleppu.  Fram kom á fundinum að dæmi væru um að „vélabilanir hefðu gjarnan átt sér stað á degi 31, sem leitt hefði til að netin hefðu verið dregin upp þegar vertíðinni var í raun lokið.   Án undantekninga hefðu dagar 33 og 34 gefið gríðargóða veiði.  Fundurinn taldi þetta hið mesta óráð og beindi því til Fiskistofu að fara gaumgæfilega yfir þessi mál.  T.d. mætti skoða hvort afli sem landað væri eftir vertíðarlok yrði skylt að landa sem VS-afla.
IMG_1342.jpg
Makríllinn var einnig mikið ræddur. Samhljómur var meðal fundarmanna að hlutdeild smábáta í heildarafla væri skammarlega lítil og brýnt að auka hana. Vegna erfiðra skilyrða á vertíðinni í ár væri rétt að veiðiheimildir sem „brenna inni kæmu til viðbótar á heildarafla næsta árs.
Fundarmönnum var tíðrætt um lokun veiðisvæða vegna smáfisks.  Sú skoðun var ríkjandi að Hafrannsóknastofnun ætti tafarlaust að færa viðmiðunarmörk fyrir þorsk í skilgreint undirmál, 50 cm.
Þorvaldur Gunnlaugsson var endurkjörinn formaður Smábátafélags Reykjavíkur.
Eins og fram hefur komið mun Halldór Ármannsson formaður LS ekki gefa kost á sér til endurkjörs á 31. aðalfundi LS sem haldinn verður 15. og 16. október nk.  Hér sést Þorvaldur Gunnlaugsson þakka Halldóri fyrir vel unninn störf í þágu LS og óska honum velfarnaðar.
P1070380.jpg