Aðalfundur Strandveiðifélagsins KRÓKS var haldinn á Heimsenda á Patreksfirði 19. september sl. Félagsmenn fjölmenntu til fundarins og eftir að hafa hlýtt á ávarp formanns síns Friðþjófs Jóhannssonar var gengið til aðalfundarstarfa.
Grásleppan bar fyrst á góma. Sá orðrómur hafði borist til Króksmanna að tillaga um atkvæðagreiðslu meðal grásleppukarla um kvótasetningu yrði til umræðu á aðalfundi LS.
Umræður urðu snarpar um málefnið en engin ágreiningur varð um niðurstöðuna. Strandveiðfélagið KRÓKUR mótmælir öllum hugmyndum um kvótasetningu á grásleppu.
Línuívilnun og byggðakvóti
Fundarmenn voru á einu máli um að línuívilnun hefði komið verulega vel út þegar horft væri til aukningar á línuveiðum. Veiðarnar hefðu stuðlað að meira framboði á afla frá dagróðrabátum sem aukið hefði umsvif í landi. Samstaða var meðal fundarmanna að skora á stjórnvöld að hækka prósentu sem færi til ívilnunar og hún gengi til allra dagróðrabáta.
Byggðakvóti var eins og endranær ræddur á aðalfundi Strandveiðifélagsins KRÓKS. Þeir sem til máls tóku voru á einu máli um að einfalda ætti reglur þar um. Byggðakvótinn ætti eingöngu að vera nýttur af dagróðrabátum úthlutað sem ívilnun við löndun. Vesturbyggð yrði falin umsjón heimildanna og úthlutun á ákveðinni prósentu af afla viðkomandi báts hverju sinni. Væri prósentan 20, væri dæmið þannig að við löndun á 1 tonni hefði viðkomandi eytt 800 kg af sínum kvóta. Við breytinguna yrði einnig að líta til þeirra útgerða sem litlar veiðiheimildir hefðu, tryggja yrði ákveðið lágmark til þeirra.
Stórbætt aðstaða fyrir smábáta
Á fundinum var kynnt stórbætt bryggjuaðstaða fyrir smábáta á Patreksfirði og Bíldudal. Búið er að dýpka höfnina á Patreksfirði og koma fyrir flotbryggju með 28 plássum og á Bíldudal hefur verið sett ný framlenging á flotbryggjuna. Af þessu tilefni samþykktu fundarmenn eftirfarandi:
Strandveiðifélagið KRÓKUR þakkar þann góða hug sem bæjarstjórn Vesturbyggðar hefur sýnt í að efla útgerð smábáta með stórbættum hafnarskilyrðum og stuðningi við strandveiðar.
Friðþjófur Jóhannsson var endurkjörinn formaður KRÓKS.
Hin nýja hafnaraðstaða