Steinn Rögnvaldsson kjörinn formaður Skalla

Aðalfundur Skalla var haldinn 23. september.  Góð mæting var á fundinn enda þétt dagskrá sem lá fyrir honum.
Sverrir Sveinsson formaður Skalla flutti að vanda yfirgripsmikla skýrslu um starfsemi félagsins á síðasta starfsári og starfi sínu sem stjórnarmaður í Landssambandi smábátaeigenda.  
Sverrir lýsti ánægju og þakklæti með stuðning bæjarstjórnar Fjallabyggðar og byggðaráðs Skagafjarðar við strandveiðar, sem Skalli hefði átt beina aðkomu að.  
IMG_2773 (1).jpg
Þá vék formaðurinn að tveimur baráttumálum Skalla á undanförnum árum.   Annars vegar væri það reglugerðarhólf sem sett var 2009 og bannaði handfæraveiðar á Fljótagrunni og hins vegar hömlur á dragnótaveiðum í Skagafirði.  Bæði málin væru í góðum farvegi. 
Þegar litið væri til þessara málefna sagðist hann geta vikið sáttur úr stóli formanns.
Sverrir endaði ræðu sína á að óska Skalla heilla og félagsmönnum velfarnaðar.
Sverri Sveinssyni var þakkað með dynjandi lófaklappi og veglegum blómvendi.
Þeir sem til þekkja þykir mikið til um þrautsegju Sverris Sveinssonar koma varðandi baráttu hans í að fá afnumda reglugerð um lokun handfæraveiða á Fljótagrunni.  Svo ötullega vann Sverrir að þessu máli að hólfið var kallað „Sverrishólfið.  Formaðurinn mætti mikilli andstöðu í baráttu sinni, en skipuleg barátta færði hann stöðugt nær markmiðinu sem hann náði 11. ágúst sl.
LS þakkar Sverri fyrir vel unnin störf í þágu smábátaútgerðarinnar og velfarnaðar um ókomin ár.
Í lok aðalfundarins var Steinn Rögnvaldsson á Hrauni kosinn formaður Skalla og óskar LS honum til hamingju með kjörið og allra heilla í starfi.   

FullSizeRender.jpg