Aflaheimildir verði auknar

Þann 20. september sl. var aðalfundur Eldingar haldinn á Ísafirði.  Sigurður Hjartarson formaður félagsins setti fundinn og greindi frá því helsta sem gerst hafði á síðasta starfsári.  Meðal þess sem hann kom inn á var veiðigjald, strandveiðar, línuívilnun, fiskmarkaðir og byggðakvóti.  
Hann sagði félagið hafa hvatt bæjarfélög við Ísafjarðardjúp til að álykta með strandveiðum með þeim árangri að bæði Ísafjörður og Bolungarvík hefðu orðið við því.  
Sigurður sagðist ekki óska eftir endurkjöri, þannig að gera má ráð fyrir að nýkjörin stjórn Eldingar velji sér nýjan formann á fyrsta fundi sínum.
Í stjórn Eldingar hlutu kosningu  eftirtaldir:
Sigurður Hjartarson         Bolungarvík
Kristján Andri Guðjónsson Ísafirði
Páll Björnsson Þingeyri
Þórður Sigurvinsson Suðureyri
Sigurður Garðarsson Flateyri.
Meðal ályktana sem samþykktar voru á fundinum má nefna:

  • Fundurinn vill að veiðiheimildir í þorski, ýsu og steinbít verði tafarlaust auknar.

  • Strandveiðar verði leyfðar í 4 mánuði á hverju fiskveiðiári með sömu formerkjum og eru í dag..

  • Handfæraívilnun verði komið á.

  • Skötuselur verði utan kvóta við grásleppuveiðar.

  • Að samband í AIS kerfinu verði stórbætt úti fyrir Vestfjörðum, sama má segja um síma og talstöðvarsamband, ef þau eiga að koma að notum sem öryggistæki.  

  • Að sett verði skilyrði á allan fiskiskipaflotann að landa á fiskmarkað ákveðinni lágmarksprósentu.