Grásleppa – Verðlagsstofa skiptaverðs úrskurði um lágmarksverð

Fontur félag smábátaeigenda á NA-landi hélt aðalfund 25. september.
Fundurinn var haldinn á Þórshöfn og var mæting afar góð.  Félagsmenn frá öllum byggðalögum svæðisins mættir – Kópaskeri, Raufarhöfn, Þórshöfn, Bakkafirði  og Vopnafirði.
Grásleppa
Eins og vænta mátti var grásleppan fyrirferðamikil á fundinum.  Einkum var það verðlagningin sem fundarmenn voru á einu máli um að þyrfti endurskoðunar við.  Áríðandi væri að LS mundi semja við væntanlega kaupendur um verð og magn fyrir vertíð.  Tækist það ekki yrði kallað eftir aðkomu Verðlagsstofu skiptaverðs.
Grásleppuvertíðin á svæðinu gekk afar vel og eru mörg ár síðan menn hafa séð aðra eins veiði. Alls skilaði grásleppuveiðin á félagssvæði Fonts 30% af heildarafla vertíðarinnar.
Megn óánægja var meðal fundarmanna í garð þeirra aðila sem virtu ekki veiðitímann 32 daga. Taka yrði fast á þeim málum með því að andvirði þess afla rynni í ríkissjóð og reiknaðist ekki til viðmiðunar í byggðakvóta.
Aðalfundur Fonts samþykkti að mótmæla harðlega öllum hugmyndum um kvótasetningu á grásleppu.
DSCN1212.jpg
Í máli formanns Fonts Odds V Jóhannssonar kom m.a. fram að væntingar grásleppukarla um verð hefðu verið 250 – 270 kr/kg og mikil bjartsýni ríkjandi.  Því miður hefði það ekki gengið eftir, verðið hefði verið um 200 krónur.
Strandveiðar
Í umræðum um strandveiðar var lögð áhersla á að  reglum verði breytt varðandi umframafla.  Sá afli mundi ekki skerða heildarkvótann, honum bæri að landa sem VS-afla.  Þá kom fram áhugi fundarmanna að minnka aflaviðmiðun í maí en auka hana að sama skapi í ágúst. 
Makríll
Mikillar óánægju gætti með þær ákvarðanir sjávarútvegsráðherra að stöðva makrílveiðar smábáta 5. september í fyrra og að fallast ekki á óbreytt veiðikerfi.  Ákvörðunin hefði leitt til verkefnaskorts fyrir fjölda báta og eigendur þeirra.  
Á félagssvæði Fonts væri varla nokkur bátur með viðunandi veiðiheimildir í makríl.  Það væri miður þar sem makríllinn væri veiðanlegur á veiðisvæði þeirra, eins og berlega kom í ljós 2014 og nú aftur 2015 þegar Nanna Ósk hefði veitt 15 tonn stutt utan hafnar á Raufarhöfn.
Það voru skýr skilaboð frá fundinum að afnema bæri núverandi úthlutun á makríl.  Veiðiheimildir yrðu settar í pott og leigðar út af ríkinu eftir sömu aðferð og reynsla væri komin á í síld.
DSCN1215.jpg
Ályktanir
Auk þess sem hér hefur verið greint frá samþykkti fundurinn eftirtalið:
  • Krókaaflamarksbátum verði heimilt að veiða síld í beitu
  • Áskorun á innanríkisráðherra að gera breytingar á lögum þannig að skipaskoðun smábáta verði annað hvert ár.
  • Áskorun á sjávarútvegsráðherra að beita sér fyrir að hluti af tekjum af veiðigjaldi verði varið til markaðssetningar sjávarafurða.
Oddur V. Jóhannsson var endurkjörinn formaður Fonts
DSCN1217.jpgFrá Þórshöfn


DSCN1219.jpg
Frá Vopnafirði