Vilja endurvekja sóknarkerfi

Hrollaugur – smábátafélag Hornafjarðar – hélt aðalfund 27. september sl.  Sá dagur jafnan helgaður Hrollaugi og fær fátt fært hann af þeim stalli.  Aðrir aðalfundir Landssambandsins eru skipulagðir útfrá deginum.
Á fundinum voru frumvarpsdrög sjávarútvegsráðherra um breytingar á lögum um vigtun sjávarafla rædd.  Þar er m.a. gert ráð fyrir eftirfarandi breytingum:
  • Leyfi til endurvigtunar verða slegin af. 

 

  • Vigtun á afla dagróðrabáta lýkur á hafnarvog – endanleg vigtun til kvóta.

  

  • Frádrag vegna íss verður 4%.  

  • Að hitastig afla sé komið niður að 2,5°C tveimur klukkustundum eftir að hann er kominn inn fyrir borðstokk.
Flestir fundarmenn tjáðu sig um frumvarpsdrögin og voru þeim sammála.  Það sem vantaði hins vegar að ræða samhliða bættum gæðum væri stóraukin mávagengt.  Það væri sárgrætilegt þegar búið væri að strjúka hverjum fiski og baða hann í krapa og skila upp á bryggju, væru endanleg gæði ekki tryggð.  Þá tæki við slagurinn við mávinn.  Ekki mætti líta eitt augnablik af körunum ef efsta lagið ætti að halda gæðum.  Hrollaugsmenn töldu sig vera í góðum málum hvað þetta varðar heimafyrir, en víða væri potttur brotinn hvað þetta varðar í höfnum landsins.
Aðalfundur Hrollaugs var sammála um að hafnaryfirvöld þyrftu að taka sig á gagnvart þessari plágu og finna ráð til að koma í veg fyrir gæðatap á fiski af völdum mávsins.
DSCN1257.jpg
Afsláttur á veiðigjald

Veiðigjald var einnig rætt á fundinum og voru smábátaeigendur sammála um að það hefði aukið aðstöðumun milli útgerðaraðila, þeirra sem væru með vinnslu og hinna.  Þannig ætti það ekki að vera og kallaði fundurinn eftir að útgerðum án vinnslu yrði veittur afsláttur af veiðigjaldi.   
Makríll

Fundurinn var sáttur með kvótasetningu á makríl.  Það hefði tappað af þrýstingi sem myndast hefði í kerfinu.  Nú þyrfti hins vegar að endurvekja sóknarkerfið sem fundurinn taldi vel geta þrifist við hlið með aflamarkskerfisins.   Miðað við ónýttar veiðiheimildir í ár, væri nægt svigrúm til að búa til góðan aflapott fyrir þá sem ekki hefðu náð aflareynslu fyrir viðunandi kvóta.
Stjórn Hrollaugs var endurkjörin
Elvar Örn Unnsteinsson formaður
Ómar Fransson gjaldkeri
Unnsteinn Þráinsson ritari
  
Hulda SF 197 - 7490.jpg
Hulda SF í heimahöfn, aflahæst á strandveiðum 2014 og 2015.