Aðalfundur Reykjaness – félags smábátaeigenda á Suðurnejum – var haldinn í Grindavík 3. október sl. Af sem áður var mættu menn ekki í tugatali, en nógu margir til að fundurinn var löglegur. Fjöldinn kom þó ekki í veg fyrir fjörugar umræður þar sem einstaka málefnum var velt upp á alla kanta, krufinn til mergjar á 5 klst. löngum fundi.
Formaður og framkvæmdastjóri LS kynntu drög sjávarútvegsráðherra að frumvarpi til breytingar á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar (vigtun, afladagbók, kælingu ofl.)
Að lokinni kynningunni flutti Hermann Ólafsson Stakkavík afarfróðlegt erindi um aflameðferð. Hann sagði að þrátt fyrir 45 ára reynslu á því sviði væri hann enn að uppgötva þætti sem betur mættu fara.
Hermann sagði engan vafa á því að smábátaeigendur hefðu öll tækifæri til að halda forystu sinni í meðferð afla þrátt fyrir að stórútgerðin hefði sótt í sig veðrið á undanförnum árum. Hann varaði við þeim breytingum sem lagðar væru til í frumvarpinu er lúta að 4% föstu ísfrádragi við vigtun á hafnarvog. Í mörgum tilfellum yrði það til að rýra gæði afla, þar sem umstöflun hans væri óhjákvæmileg við flutning landshluta á milli.
Að fella úr gildi leyfi til endurvigtunar á grundvelli orðróms næði engri átt, nær væri að fjölga eftirlitsmönnum. Jafnvel að skilyrða leyfi til endurvigtunar því að leyfishafi greiddi fyrir kostnað við löggiltann vigtarmann til að vera viðstaddur vigtun.
Umræður að loknu erindi Hermanns leiddu til eftirfarandi ályktunar sem fundurinn ákvað að senda til 31. aðalfundur LS sem haldinn verður 15. og 16. október nk.:
Breytingar tryggi enn meiri gæðiAðalfundur Reykjaness skorar á stjórnvöld að gera engar breytingar á reglum um vigtun nema tryggt sé að þær auki gæði frá því fiskur er veiddur og þar til hann er kominn á disk neytenda.
GreinargerðSjávarútvegsráðherra hefur boðað breytingar á lögum um vigtun sjávarafla. Þar er gert ráð fyrir að leyfi til endurvigtunar verði afnumið og vigtun afla hjá dagróðrabátum ljúki á hafnarvog með ísfrádragi að hámarki 4%. Við slíka breytingu er ljóst að umstöflun við endurísun til flutnings verður óhjákvæmileg sem leiðir til rýrnunar gæða.Við fyrirhugaðar breytingar þarf að taka sérstakt tillit til að afla dagróðrabáta er landað óslægðum.
Auk framgreindrar ályktunar samþykkti fundurinn eftirfarandi:
Öryggismál – of langt gengiðAðalfundur Reykjaness þakkar þá miklu öryggisgæslu sem Vaktstöð siglinga veitir sjófarendum. Fundurinn telur að þau tæki sem um borð eru séu góð viðbót við öryggi sem býr í bát og skipstjóra. Það er mat fundarins að bilun tækja í dagróðrum strandveiða eigi ekki að þýða endalok sjóferðar.
VeiðirétturAðalfundur Reykjaness hafnar öllum hugmyndum um að ríkið yfirtaki veiðirétt á fiskimiðum við Ísland
Greinargerð:Veiðiréttur á fiskimiðum við Ísland hefur aldrei verið eign íslenska ríkisins.
Úttekt á fjarskiptamálum
Aðalfundur Reykjaness leggur til að gerð verði allsherjarúttekt á AIS kerfinu m.t.t. sendistyrks og skuggasvæða.
StrandveiðarAðalfundur Reykjanes skorar á stjórnvöld að heimila 4 daga val í hverri viku strandveiða.
GrásleppumálAðalfundur Rekjaness mótmælir harðlega öllum hugmyndum um kvótasetningu á grásleppu.
16% hlutdeild í makrílAðalfundur Reykjaness skorar á LS að fylgja fast eftir sanngjörnum tillögum félagsins um að 16% heildaraflans í makríl verði veiddur af smábátum. Fundurinn krefst þess makrílveiðum smábáta verði stjórnað með sóknartengdu veiðikerfi.
Reglur um byggðakvótaAðalfundur Reykjaness styður heilshugar hugmyndir LS að byggðakvóti verði nýttur af dagróðrabátum með ívilnun við löndun.
Þorlákur Halldórsson Grindavík
formaður Reykjaness