Verulegur árangur við hreinsun Eyjafjarðar

Aðalfundur Kletts (Ólafsfjörður – Tjörnes) var haldinn á Akureyri sl. sunnudag 4. október.  Í skýrslu formanns Óttars Más Ingvasonar kom hann inn á helstu málefnin á starfsárinu.  Þar bar hæst að félagið hefði beitt sér fyrir hreinsun Eyjafjarðar eftir lánlaust kræklingaeldi við Hrísey.  Línur hefði verði út um allt og verið stórhættulegar bátum sem þar stunduðu veiðar.  Óttar þakkaði sérstaklega Hilmari Stefánssyni fyrir framgöngu hans í hreinsuninni og fylgdi fundurinn því eftir með dynjandi lófaklappi.
Aðalfundur Kletts samþykkti fjölmargar ályktanir til aðalfundar LS.  Meðal þeirra voru:  
Fyrirhuguðu laxeldi mótmælt
Aðalfundur Kletts mótmælir harðlega fyrirhuguðu 8.000 tonna laxeldi Norðanlax í Eyjafirði.
DSCN1276.jpg
Ánægja með viðbrögð stjórnvalda
Aðalfundur Kletts lýsir ánægju með að stjórnvöld skuli hafa brugðist við og hlutast til um að Eyjafjörður verði hreinsaður af aflögðum búnaði og línum sem áður tilheyrðu kræklingarækt.
Línuveiðar stærri báta
Veiðar línubáta yfir 30 brt. innan viðmiðunarlínu verði takmarkaðar.
Viðurlög við handfæraveiðum
Aðalfundur Kletts leggur til að óheimilt verði að stunda handfæraveiðar þar sem undirmál í þorski fer yfir 10% af þyngd.  Þeir bátar sem ítrekað eru staðnir að slíku skuli sæta viðurlögum.
Fordæmir óheft völd ráðherra
Aðalfundur Kletts fordæmir vinnubrögð stjórnvalda að færa ráðherra óheft völd hvernig úthlutað er til strandveiða, línuívilnunar og byggðakvóta.  Þessi ráðstöfun er algerlega á skjön við heilbrigða og gegnsæa stjórnsýslu og til þess eins að leiða til sundrungar og spillingar.
AIS nái yfir þekktar veiðislóðir
Skorað er á stjórnvöld að tryggja að langdrægni AIS kerfisins sé með þeim hætti að það nái yfir þekkta veiðislóðir smábáta s.s. svæðið í kringum Kolbeinsey, Hornbanka og norðanverðar Strandir.
Því er harðlega mótmælt að farsvið smábáta sé takmarkað við ástand og ásigkomulags AIS eftirlitskerfisins eins og það er á hverjum tíma.
Virkari verðmyndun á fiski
Aðalfundur Kletts telur brýnt að tryggð verði virkari verðmyndun á fiski m.a. með því að tryggja með reglu, aukið framboð afla á skipulögðum uppboðsmörkuðum.
Krókaaflahlutdeild í ýsu verði 25%
Aðalfundur Kletts skorar á ráðherra sjávarútvegsmála að hækka hlutdeild krókabáta í ýsu í 25% af heildarúthlutun sem er í samræmivið veiðar þeirra undanfarin ár.
Auk framangreindra samþykkta voru ályktanir um strandveiðar, línuívilnun, VS-afla, makríl og grásleppu samþykktar á fundinum.
DSCN1271.jpg
Formaður Kletts er Óttar Már Ingvason