Skagfirðingar óhressir með byggðakvóta

Drangey – smábátafélag Skagafjarðar hefur ritað Sveitarfélaginu Skagafirði bréf varðandi byggðakvóta til handa bátum á Sauðárkróki.  Þar harmar félagið þá stöðu sem komin er upp þar sem úthlutun byggðakvóta til Sauðárkróks hefur algjörlega verið slegin af.
Í bréfi Drangeyjar er óskað eftir aðkomu Sveitarfélagins Skagafjarðar í að endurheimta byggðakvóta sem komið hefur til Sauðarkróks og standa vörð um að Hofsós haldi sínu.
Á undanförnum árum hafa um 70 tonn af byggðakvóta komið í hlut Sauðárkróks.  Megnið af honum hefur verið úthlutað til dagróðrabáta og skiptu alls 17 útgerðir honum á milli sín á síðasta ári.  Takist ekki að ná fram breytingu á úthlutun nú kemur það sér afar illa fyrir þá smábátaeigendur sem byggt hafa afkomu sína á að stunda útgerð frá Sauðárkróki.
  
„Afkoma þeirra hefur byggst á grásleppuveiðum að vetrinum og strandveiðum yfir sumarið.  Að haustinu hafa menn svo haldið uppi veiðum með byggðakvóta sem drýgður hefur verið með leigukvóta, eins og segir í bréfi Drangeyjar.
Það er mat Drageyjar – smábátafélags Skagafjarðar að aflaverðmæti sem hverfur úr sveitarfélaginu, verði ákvörðunin ekki dregin til baka, losi 20 milljónir sem skilji eftir sig stórt skarð í tekjur þeirra manna sem byggja afkomu sína á smábátaútgerð. 

IMG_2773.jpg

Frá Sauðárkróki