Frétt á facebook síðu LS um einkennilega verðlagningu á ýsu hefur vakið mikla athygli. Málið var tekið upp í Bítinu – morgunþætti Bylgjunnar, í gærmorgun. Þar var rætt við fisksala hjá Litlu fiskbúðinni í Hafnarfiði. Hann sagði að engin breyting hefði orðið á ýsuverði hjá sér frá því verðið var 400 kr á mörkuðunum. Hvert kíló af ýsuflökum roð- og beinlausum kostaði 1.690 krónur. Þarna er um verulegan mun að ræða milli fiskbúða þar sem greint var frá verði í fiskbúð í Reykjavík upp á 2.170 sem er 30% hærra en hjá Litlu fiskbúðinni.
Í samtali við fisksalann kom einnig fram að 3 kg af óslægðri ýsu gæfu af sér kíló af roð- og beinlausu. Sé tekið mið af því er ansi vel í lagt að selja flakið á 2.170 kr þegar markaðsverð af 3 kg nær ekki 800 krónum.
Smábátaeigendur hafa fullan skilning á að allir sem koma að viðskiptum þurfa að bera eitthvað úr bítum, annars kæmu þeir vart nálægt þeim. Skiptin þurfa hins vegar að vera sanngjörn þannig að ekki fari illa.
Smábátaeigendur jafnt og fisksalar eiga það sameiginlegt að það er þeirra hagur að fiskur sé sem oftast á diskum landsmanna. Þar eiga þeir í harðri baráttu við önnur matvæli. Verðlagning til neytenda verður að taka mið af þessu umhverfi.