Samkeppniseftirlitið hefur birt frummatsskýrslu um markaðsrannsókn á eldsneytismarkaðnum. Í skýrslunni kemur fram að samanlagt eiga Gildi lífeyrissjóður og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins A og B deild 16,15% í N1 og 27,17% í Skeljungi. Í Skeljungi er hlutur Gildis 13,16% og LSR 14,01% og í N1 er eignarhlutur Gildis 7,82% og LSR 8,33%.
Getur haft skaðleg áhrif
Um þessi eignatengsl segir m.a. eftirfarandi í skýrslunni:
„Þegar greind eru eignatengsl á milli Skeljungs og N1 þá er líklegt að eign Gildis og LSR geti haft skaðlegust áhrif á samkeppni á eldsneytismarkaðnum. Meginástæða þess er sú að LSR er annar stærsti hluthafinn á báðum olíufélögunum og Gildi er jafnframt þriðji stærsti hluthafinn í báðum. Augljóst er að báðir lífeyrissjóðrnir hafa í því ljósi möguleika á að hafa áhrif á stefnu viðkomandi fyrirtæja, en vakin er athygli á því að sjóðirnir eiga viðlíka hluti í báðum félögunum.
Segir í sérstökum kafla skýrslunnar þar sem ályktað er um málefnið.
Viðbrögð Gildis lífeyrissjóðs
Ályktunin vekur furðu og er órökstudd
Viðbrögð Gildis lífeyrissjóðs við ofanrituðu er að vísa ályktunninni alfarið á bug. Sjóðurinn segir um ályktun Samkeppniseftirlitsins þess efnis að eignarhald sjóðsins í Skeljungi og N1 geti haft skaðleg áhrif á eldsneytismarkaðinn vekja furðu og vera órökstudda.
Gildi lífeyrissjóður tekur m.a. fram eftirfarandi máli sínu til stuðnings:
„Rétt er að undirstrika að sjóðurinn kemur aldrei að daglegum rekstri félaga sem sjóðurinn á hlut í, svo sem ákvörðunum um verðlagningu. Gildi telur mjög mikilvægt að hvert félag starfi sjálfstætt að markmiðum sínum í samkeppni við önnur félög í sömu grein, óháð því hvort sjóðurinn á hlut í þeim félögum.
Krefst leiðréttingar
Í niðurlagi tilkynningar Gildis segir eftirfarandi:
„Gildi-lífeyrissjóður vísar ályktun Samkeppniseftirlitsins varðandi eignarhald Gildis alfarið á bug og væntir þess að hún verði leiðrétt í lokaskýrslu eftirlitsins um efnið.
Sjá nánar: Skýrsla Samkeppniseftirlitsins