Dagana 28. til 30. september verður stórsýningin SJÁVARÚTVEGUR 2016 haldin í Laugardalshöllinni. Á sýningunni mun íslenskur sjávarútvegur sýna allt það nýjasta og besta sem hann hefur upp á að bjóða.
Alls hafa um 90 fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum tekið frá sýningarsvæði. SJÁVARÚTVEGUR 2016 mun þannig spanna allt frá stórum nýjum hátækni fiskvinnsluvélum til smærri nýjunga fyrir fiskiskip og fiskvinnslur.
Á sýningunni verða veittar viðurkenningar til aðila er þykja hafa staðið sig vel innan sjávarútvegsgeirans. Eftirfarandi samtök innan sjávarútvegsins sem jafnframt eru stuðningsaðilar sýningarinnar munu veita viðurkenningarnar: Sjómannasamband Íslands, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Landssamband smábátaeigenda, VM – Félag vélstjóra og málmtæknimanna, SFÚ – Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda, Íslenski sjávarklasinn og Konur í sjávarútvegi.