Aflabrögð strandveiðibáta hafa það sem af er vertíð verið mjög góð. Svo virðist sem veiðarnar nú gefi strandveiðum 2015 lítið eftir en þá sló fiskgengdin öll fyrri met. Það segir kannski eitt og sér hversu þorskstofninn er sterkur um þessar mundir. Sjómenn eru á einu máli um að þorskurinn sé vel haldinn, lifrarmikill og fallegur.
Veiðum í júní er lokið á tveimur svæðum A og D. Stöðvun veiða hefur þau áhrif að 350 bátar eru verkefnalausir til mánaðarmóta. Engin innkoma hjá sjómönnum og útgerðaraðilum og vinnsluaðilar kvarta sáran yfir litlu framboði af ferskum fiski.
Á svæði A voru veiðidagar aðeins 7 og á D voru veiðar stöðvaðar að loknum 9 dögum. Svipað var uppi á teningunum í maí 10 veiðidagar á A og 12 á D svæði.
Strandveiðidagar í júní eru alls 18. Miðað við stöðuna í morgun er allt útlit fyrir að veiðar á svæði B stöðvist á næstu dögum. Meðalveiði á dag í mánuðinum eru 42 tonn og eftir er að veiða 113 tonn.
Alls hafa 620 bátar stundað strandveiðar á tímabilinu 1. maí – 22. júní. Flestir á svæði A 228 bátar eða 37% heildarfjöldans, en á önnur svæði er dreifing afar jöfn.
Beðið eftir ákvörðun ráðherra
Sjómenn bíða óþreyjufullir eftir ákvörðun Gunnars Braga Sveinssonar um heildarafla fyrir næsta fiskveiðiár. Þeir telja að nú sé loksins komið að því að ráðherra gefi út meiri heildarafla í þorski en þau 5000 tonn sem Hafrannsóknastofnun leggur til að bætt verði við kvótann.
Mistök mæld í prómilli
Ekki verður skilið við þessi skrif en að vekja á því athygli að nú á árinu 2016 þegar þorskstofninn er með besta móti, að þá skuli sjávarútvegsráðherra hafa tekið þá ákvörðun að skerða þorskveiðiheimildir hjá 122 strandveiðisjómönnum sem róa á svæði D.
Landssamband smábátaeigenda hefur skorað á ráðherra að leiðrétta mistökin með því að auka nú þegar veiðiheimildir á svæðinu um 200 tonn.
Afar mikilvægt er að ráðherra verði við þessari áskorun ekki síst í ljósi þess að gjörbreyttar aðstæður eru á svæðinu og að leiðréttingin – aflamagnið – er innan við eitt prómill af leyfilegum heildarafla í þorski. Heimildin mundi nýtast til veiða hjá á annað hundrað sjómönnum í 5 – 6 daga.