Grásleppuveiðar og framtíð þeirra

Aðeins 13 bátar eru nú á grásleppuveiðum á innanverðum Breiðafirði en á sama tíma í fyrra voru þeir 22.  Þetta segir kannski allt sem segja þarf um vertíðina í heild.  
Fjórðungi færri stunduðu grásleppuveiðar í ár en 2015.  Þær gengu á flestum stöðum prýðilega ef frá er skilið NA landið frá Raufarhöfn og suður með Austurlandi.  Á því svæði var hins vegar mokveiði á vertíðinni 2015.
Til marks um góða veiði var afli nú á hvern veiðidag 14% meiri en 2015 sem var þó besta árið í áratug.  Að vanda stunduðu flestir grásleppuveiðar á svæði E sem markast af Skagatá og Fonti á Langanesi.  Á svæði – F – frá Fonti og suður að Hvítingum stunduðu fleiri bátar veiðar en í fyrra. Góð veiði 2015 hefur laðað fleiri að.  

Staðan       23-6

2016

2015

Leyfi

Dagar

Leyfi

Dagar

Svæði A

21 bátar

629 dagar

37 bátar

1072 dagar

Svæði B

32 bátar

730 dagar

56 bátar

1233 dagar

Svæði C

9 bátar

275 dagar

16 bátar

512 dagar

Svæði D

41 bátar

1288 dagar

47 bátar

1490 dagar

Svæði E

93 bátar

2909 dagar

123 bátar

3858 dagar

Svæði F

35 bátar

1083 dagar

31 bátar

953 dagar

Svæði G

6 bátar

192 dagar

10 bátar

313 dagar

Samtals

237 bátar

7106 dagar

320 bátar

9431 dagar

 

Afli:

9.553 tunnur

Afli:

11.118 tunnur

Afli pr. dag af grásleppu

714 kg

624 kg


Lágt verð
Verð á grásleppu var lágt og gengu væntingar sjómanna um óbreytt verð frá 2015 ekki eftir. Landssamband smábátaeigenda taldi skynsamlegt að draga úr framboði og takmarka veiðarnar við 10 þúsund tunnur.  Enn væru óseld hrogn frá í fyrra þegar veiðin endaði í 12.150 tunnum og því óhjákvæmilegt að bregðast við.  Óskað var eftir því við ráðherra að veiðidögum yrði fækkað úr 32 í 26 daga.  Það voru því mikil vonbrigði þegar ráðherra ákvað að lengd vertíðarinnar yrði 32 dagar.  Ákvörðunin leiddi til einbeittrar verðlækkunar enda á þeim tímapunkti fyrirsjáanlegt að um offramboð yrði að ræða.  Samtímis dvínaði áhugi grásleppusjómanna fyrir veiðunum.
Slök veiði á Grænlandi
Á síðari hluta vertíðarinnar bárust þær fréttir frá Grænlandi að veiðar þar gengju ekki sem skildi. Í kjölfar þess kvikknaði eftirspurn erlendra kaupenda eftir hrognum og hækkuðu þau jafnt og þétt eftir því sem á leið. 
Vertíðin á Grænlandi skilaði 5.700 tunnum sem var aðeins 57% af því sem þeir höfðu sett sér. Ástæður þessarar minni veiði voru margvíslegar s.s. ógæftir, lágt verð og færri bátar á veiðum.  
Góð staða fyrir sjómenn
Heildarveiði beggja þjóðanna nær því vart 16 þúsund tunnum sem er eitt þúsund tunnum minna en það sem markaðurinn þarf að lágmarki til að halda stöðugleika milli framboðs og eftirspurnar. Magnið mun þó nægja til að uppfylla allar pantanir og sölu til næstu vertíðar.  Á móti ætti það að leiða til aukinnar eftirspurnar á næstu vertíð og verðhækkunar, þar sem birgðastaða framleiðenda verður í lágmarki.
Þróun grásleppuveiða og framtíð þeirra
Það er verulegt áhyggjuefni hvernig verð á grásleppu hefur þróast undanfarin ár.  Alla jafna voru 4 þjóðir sem stunduðu veiðarnar:  
Ísland
Nýfundnaland
Noregur
Grænland.
Lengst af var aflinn mestur hér og á Nýfundnalandi.  Það breyttist hins vegar eftir að Grænlendingar komu að krafti inn í veiðarnar upp úr aldamótum.  Á árinu 2003 veiddu þeir til jafns við Ísland.  Heildarveiðin það ár skilaði um 35 þúsund tunnum, en svo „heppilega vildi til það árið að veiði brást á Nýfundnalandi.  Það gerðist hins vegar ekki árið 2004, metveiði á Nýfundnalandi 15.500 tunnur, 12 þús. hér og 9 þús. á Grænlandi.  Offramboð var orðið með heildarveiði nálægt 42 þúsundum tunna.
LUROMA
Luroma label.png
Á þessum tíma var það mikið lán að Landssamband smábátaeigenda hafði beitt sér fyrir stofnun umræðavettvangs LUROMA (Lumpfish Roe Matters) árið 1989.  LUROMA hópurinn samanstendur af fulltrúum smábátaeigenda þeirra þjóða sem stunda grásleppuveiðar og framleiðenda á grásleppukavíar.  Með sameiginlegu átaki tókst að draga úr veiðum og koma á jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar.  Verð hækkaði á öllum stigum – til sjómanna, til vinnsluaðila og seljenda – án þess að kaupendum væri ofboðið.
Breytingar leiða til verðlækkunar
Nú hin síðari ár hefur átt sér stað breyting á.  Aukið framboð nýjunga í sjávarútvegi og eftirlíkinga á grásleppukavíar, auk annarra tegunda hafa leitt til minni eftirspurnar.  Samfara hefur aukin samkeppni seljenda leitt til verðlækkunar og í þriðja lagi hefur ekki tekist að takmarka veiðar við eftirspurn.  
Verðlækkanir hafa bitnað á sjómönnum og dregið úr áhuga þeirra til veiðanna.  Veiðar á Nýfundnalandi og Noregi hafa þannig lítt verið stundaðar af þessum sökum undanfarin ár.  Það sem haldið hefur íslenskum grásleppusjómönnum enn að veiðum er opnum markaðar fyrir frosna grásleppu til Kína.  Grænlendingar hafa til þessa getað bætt sér upp verðlækkun með góðri veiði.  Þar eru hins vegar blikur á lofti.  Þeir sækja í auknum mæli til þorsk- og grálúðuveiða sem gefa mun betri tekjur en grásleppuveiðar.
Óvissa
Hvert framhald þessara veiða sem stundaðar hafa verið í sjö áratugi þar sem hrogn hafa verið nýtt til kavíarvinnslu skal ósagt látið.  Þessi viðkvæmi og takmarkaði hópur sem neytir grásleppuhrognakavíars þarf sérstaka umhyggju.  Skilaboð grásleppusjómanna til vinnsluaðila eru skýr, verð þarf að hækka þannig að grásleppuveiðar tryggi þeim viðunandi afkomu.
Þá er einnig nauðsynlegt að aðkoma stjórnvalda þarf að taka mið af því hvað samtök stærstu hagsmunaaðilanna, veiðimanna í þeim löndum sem grásleppa er veitt, leggja til.