Mok á makrílnum

Screen Shot 2016-08-16 at 16.26.22.png
Ævintýraleg makrílveiði er búin að vera undanfarna daga í Faxaflóa og við Keflavík.  
Smábátar sem hafa leyfi til makrílveiða með línu eða handfærum hafa margir hverjir tví og þrífyllt sig á einum degi nokkra tugi metra frá landi.
Veiðin byrjaði frekar rólega um miðjan júlí suður af Grindavík og voru fáir bátar á veiðum. Veiðin hefur síðan færst inn í Faxaflóann með ströndinni allt frá Garðskaga og inn að Vatnsleysuströnd. 
Það má segja að landburður hafi verið af makríl frá byrjun ágúst og varla hefur hafst við að taka á móti afla í Keflavíkurhöfn að undanförnu. 
Þá er einnig brostin á mokveiði við Snæfellsnes á síðustu dögum.
Verð er frekar lágt á makríl um þessar mundir og kemur það mjög illa við marga sem treysta sér ekki til veiða. Það skýrir að hluta til hvers vegna rétt tæplega 30 bátar eru að veiðum.