Sameinum krafta allra smábáteigenda.

Strandveiðum 2016 lauk 11. ágúst sl.  Strandveiðar hafa fest sig í sessi og þykir smábátaeigendum tími til kominn að lögum verði breytt þannig að ekki komi lengur til stöðvunar veiðanna í miðjum mánuði.  
LS hefur ákveðið að blása til ærlegrar sóknar til að tryggja framgang málsins og hefur af því tilefni óskað eftir innleggi frá félagsmönnum. 
Fyrstur til að ríða á vaðið er Vigfús Ásbjörnsson strandveiðimaður á Hornafirði og félagsmaður í Hrollaugi:
Nú er lag, aukum slagkraftinn, það verður kosið í haust. 

650 strandveiðimenn sem marsera í takt undir markvissri og sýnilegri forystu Landssambands smábátaeigenda er eitt öflugasta afl sem komið hefur inn í íslenskan sjávarútveg á seinni tímum.  

Krafan er að fá að stunda strandveiðar 4 daga í viku yfir sumarið.  Mikilvægt er að láta í okkur heyra með markvissum og sýnilegum aðgerðum.  Við höfum meðbyr í umræðunni í dag sem við skulum nýta okkur.  


11537247_10203363109793353_5561034820606627196_o.jpg
Strandveiðikerfið er nýjung í sjávarútvegi.   
Strandveiðar hafa sannað gildi sitt sem eitt öflugasta byggðarfestu- kerfi sem komið hefur verið á laggirnar í seinni tíð og það á tvímælalaust að efla.  Þær styrkja mannlíf hinna dreifðu byggða, glæða hafnir landsins lífi og efla fiskmarkaði og vinnslur um land allt.  Strandveiðar sýna ferðamönnum íslenskan sjávarútveg.  Auk þess hefur kerfið opnað fyrir nýliða til að hasla sér völl í útgerð.


Höldum kröfum okkar lifandi í fjölmiðlum um land allt alla daga, hjá stjórnmálaflokkunum, þingmönnum og tilvonandi þingmönnum.  Köllum eftir afstöðu þeirra áður en við kjósum. Haustið og veturinn skulum við nýta til þess að berjast taktískt, allir sem einn, fyrir sömu kröfunni. 

Fundum með okkar félögum um aðgerðir og hugsum út fyrir boxið, sendum fyrirspurnir á þá sem bjóða sig fram, förum í fjölmiðla og aukum umræðuna, verum sýnileg/ir og stöndum saman.  Með markvissum aðgerðum LS, aðildarfélaga þess og strandveiðimanna allra munum við ná fram sanngjarnri kröfu okkar.  

Marserum í takt.  Ekkert fær stöðvað þann fjölda sem kemur að útgerð 650 strandveiðibáta.
Hornafirði 18. ágúst 2016
Vigfús Ásbjörnsson