Veiðigjöld – uppboðsleið


Gjaldtaka fyrir afnot af auðlindinni 
Veiðigjöld – uppboðsleið
er yfirskrift greinar eftir Örn Pálsson sem birtist í Fiskifréttum 22. september sl.
Á undanförnum vikum hafa fjölmiðlar fjallað um uppboðsleið í sjávarútvegi. Umræðan náði verulegu flugi þegar fréttir bárust frá frændum okkar Færeyingum. Þar hefði uppboð verið haldið á fiskveiðiheimildum og verðið sem fékkst margföld sú upphæð sem útgerðir á Íslandi greiða í veiðigjöld af sömu tegundum. Að vísu var þetta ekki í fyrsta skiptið sem Færeyingar bjóða upp fiskveiðiheimildir. Það gerðu þeir einnig árið 2011 þegar boðinn var upp hluti makrílkvótans í þrennu lagi, alls 20 þúsund tonn – rúm 13,3% heimilda það árið.  Verðið var frá 33 kr/kg upp í 93 sem skilaði 71 krónum að meðaltali. 
 
Það næsta sem fréttist af uppboði í Færeyjum var það sem áður var vitnað til en það 4 ára hlé sem varð á milli uppboða skýrist væntanlega af lengd kjörtímabilsins þar í landi sem er sú sama og hjá okkur Íslendingum.
ÖP á heimasíðu A.jpg

Stjórnmálaflokkar og gjaldtakan
Í aðdraganda kosninga eru stjórnmálaflokkar eins og endranær að þreifa fyrir sér um leiðir sem vænlegar eru til að auka kjörfylgi. Gjöld á sjávarútveginn eru þar ofarlega á listanum, enda almenningur ekki í vafa um að þangað sé gull að sækja, borðið hlaðið allsnægtum. Ekki lái ég kjósendum að hafa þessa skoðun enda liggur fyrir að sjávarútvegurinn hefur greitt tugi milljarða í veiðigjöld á undanförnum árum. Samhliða hafa stærstu fyrirtækin innan hans blómstrað og skilað eigendum sínum milljörðum í arð jafnframt því að hafa styrkt stöðu sína. Á það jafnt við í vinnslutækni, skipakaupum, aðbúnaði öllum og kvótastöðu. 
Þeir stjórnmálaflokkar sem bjóða fram lista fyrir kjósendur þann 29. október nk. eru allir hlynntir veiðigjaldi, reikna með álitlegum tekjum af því fyrir ríkissjóð, gjaldstofn sem verður á fjárlögum á nýju kjörtímabili. Veiðigjöldin hafa verið að þróast í átt til sanngirni fyrir greiðendur á undanförnum árum. Við breytingar sem gerðar hafa verið hefur tekist að hámarka gjaldið með tilliti til afkomu sjávarútvegsins. Það á þó ekki við í öllum tilvikum eins og hér verður nánar rakið.  
Ekki breytingar til batnaðar
Breyting um að færa greiðslu veiðigjaldsins til þeirra sem veiða er dæmi um það sem miður hefur farið. LS var andvígt henni og mótmælti þeirri staðhæfingu flutningsmanna að kvótaleiga mundi lækka samfara breytingunni. Það stóð heima, gjaldið varð einungis til að auka kostnað þeirra sem eru við veiðar. Einnig fer það betur að handhafar veiðiheimilda séu ábyrgir fyrir því að þær séu nýttar að fullu með veiðum.  Aðalfundir svæðisfélaga LS sem nú standa sem hæst hafa krafist þess að breytingin gangi til baka.

Screen Shot 2016-09-24 at 09.26.55.png

Þá hafa breytingar ekki tekið nægilegt tillit afkomu útgerða sem hafa vinnslu á bak við sig samanborið við hinar.  Himinn og haf skilur á milli afkomu smærri fyrirtækja og þeirra 50 sem eru handhafar 87% veiðiheimildanna.  Veiðigjaldið hefur á þann hátt stuðlað að enn meiri samþjöppun sem er þvert á yfirlýsingar stjórnvalda.  
Dæmi um það sem færst hefur í rétta átt er sundurliðum á gjaldi sem greiða á fyrir magn sem veitt er af hverri tegund.  Útreikningar hafa færst nær raunafkomu og er það vel.  

Athugasemdir LS
Landssamband smábátaeigenda hefur margsinnis gert athugasemdir við álagningu og útreikninga á veiðigjaldi. Þegar breytingar voru gerðar á lögunum í júní 2015 kom fram í umsögn LS að ekki væri sanngjarnt að beita sömu aðferðafræði á alla útgerðarhópa sem nánast eingöngu veiddu bolfisk og hinna. Auk þess var gerð alvarleg athugasemd við að veiðigjöldum væri ekki skipt upp og lögð á hvern útgerðarhóp fyrir sig m.t.t. afkomu. Stjórn LS hefur ályktað um málefnið og svæðisfélög LS hafa tekið í sama streng. Þar hefur verið lögð áhersla á að veita verulegan afslátt eða hverfa alfarið frá veiðigjaldi á smábátaútgerðir sem ekki hafa vinnslu á bak við sig. Á þann hátt væri hægt að hægja á samþjöppun og styrkja rekstrargrundvöll smærri og meðalstórra útgerða.   
Þegar á heildina er litið hefur samþjöppun í þorski og ýsu, sem eru tvær helstu tegundirnar sem smábátar veiða, síðastliðinna 5 fiskveiðiára verið gríðarleg.   Fiskveiðiárið 2012/2013 voru 10 fyrirtæki með 35,8% af öllum þorski en í ár 42,7%. Í ýsu voru tölurnar 37,0% fyrir fimm árum en á yfirstandandi fiskveiðiári er hlutdeild þeirra 10 stærstu í ýsu komin í 44,7%.  (Sjá töflu).
Screen Shot 2016-09-24 at 09.50.38.png

Veiðigjöld verði útfærð betur
Að lokum aftur að umræðunni um uppboð á veiðiheimildum. Allar hugmyndir um uppboð allra veiðiheimilda þar sem jafnt stórir og smáir taka þátt tel ég útilokaðar og engum til hagsbóta, hvorki útgerð og vinnslu né sem aðferð til tekjuaukningar fyrir ríkissjóð. Aukin gjaldtaka mun leiða til bágari afkomu og lægri skatttekna. Ég er hins vegar sannfærður um að áfram eigi að byggja á veiðigjöldum. Útfæra verði þá leið betur, t.d. hvort ekki sé rétt að koma inn ákveðnum þrepum í gjaldtökunni eins og tíðkast í skattkerfinu. Sú leið tel ég t.d. verða til að jafna aðstöðumun lítilla og meðalstórra útgerða samanborið við þær stærstu, samhliða því að fjölbreytt útgerðarform yrði betur tryggt.  
Höfundur er framkvæmdastjóri 
Landssambands smábátaeigenda.