Við setningu 32. aðalfundar LS flutti Halldór Ármannsson fyrrverandi formaður ræðu. Hér á eftir eru settar inn nokkrar tilvitnanir úr henni en ræðuna í heild má nálgast með því að blikka hér.
Gullið tækifæri til að laga strandveiðikerfið
„Núna höfum við gullið tækifæri til þess að laga strandveiðikerfið fyrir næsta tímabil, bæta öryggi sjómanna, auka verðmæti og gæði þess afla sem kemur að landi. Það er vonandi að þeir stjórnmálaflokkar eða þau stjórnmálaöfl, sem setjast við stjórnvölinn leggi við hlustir
Aukning í þorski 50%, en aðeins 20% í strandveiðum
„Það er nóg rými fyrir þá aukningu sem þarf, því á meðan að aflamark í þorski hefur aukist um 50% frá árinu 2011 hefur aukning í strandveiðar aðeins vaxið um 20%. Ekki þurfum við að hafa áhyggjur af því að stórútgerðin vilji aukningu í þorski því þeir skrifa uppá útgefið aflamark frá Hafrannsóknastofnun
Verði gert kleift að standa á eigin fótum
„Margir þessara aðila reyndu ekki einu sinni að veiða makríl á þessari vertíð, þeir vildu helst skipta á aflareynslunni og öðrum fisktegundum í stóra kerfinu. Við ykkur fulltrúa framboða til Alþingis segi ég, við þurfum ekki fleiri leiðir til þess að koma aflaheimildum upp í stóra kerfið. Við þurfum starfsumhverfi sem gerir okkur kleift að standa á eigin fótum í samkeppni við stórútgerðina. Ég hvet ykkur til þess að kynna ykkur tillögur og ályktanir allra svæðisfélaga Landssambands smábátaeigenda og heildarsamþykktir aðalfundarins að honum loknum því þar koma fram heildarhagsmunir félagsmanna.
„Hagræðing og arðsemi fyrir hvern?
Landssamband smábátaeigenda hefur staðið vaktina fyrir tilverurétti smærri útgerða og einyrkja í sjávarútvegi á Íslandi í rúm 30 ár. Ég hef starfað sem smábátasjómaður í rúm tuttugu. Þann tíma sem ég hef komið að félagsmálum og í þau þrjú ár sem ég hef verið formaður ykkar hefur mín sýn á stjórnvöld, hvaða nafni sem þau nefnast, verið sú að í mörgum tilfellum hafi hagsmunir fámennra þrýstihópa verið teknir fram yfir heildarhagsmuni eins fjölmennra samtaka og Landssambandið er. Þar bera stjórnvöld mikla ábyrgð. Sú stefna stjórnvalda að sameining og hagræðing og að sem fæstir komi að sjávarútvegi er byggðafjandsamleg. Við spyrjum á móti – „hagræðing og arðsemi fyrir hvern?
Setningarræða Halldórs Ármannssonar.pdf