Hinn 21 nóvember 1997 voru Alþjóðasamtök strandveiðimanna og fiskverkafólks stofnuð í Nýju Dheli á Indlandi. Nokkrum árum síðar fékk þessi dagsetning viðurkenningu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna sem Alþjóðadagur fiskveiða (World Fisheries Day).
Dagurinn er helgaður baráttu smábátaveiðimanna, frumbyggjaveiða og fiskverkafólks fyrir grundvallar réttindum sínum, bæði hvað varðar aðgengi að miðum og viðurkenningu þeirra réttinda í lögum og reglum. Sá pottur er víða um heim illilega brotinn.
Fyrstu árin voru það einungis Alþjóðasamtökin sem héldu upp á daginn með einhverjum hætti -mómælagöngum, útifundum, kvikmyndahátíðum og jafnvel uppsettum leikritum. Sú ánægjulega breyting hefur orðið á að fjölmörg samtök hafa tekið upp á því að efna til atburða hinn 21. nóvember.
Í dag efndi t.d. Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) til umræðna um mannréttindi innan fiskveiðanna. Yfirskrift atburðarins er „Mansal og þrælahald innan fiskveiðigeirans og ólöglegar og óskráðar fiskveiðar, mannréttindabrot á fiskimönnum.
Hérlendis kann mörgum að þykja þetta fjarlægt viðfangsefni fyrir íslenskan sjávarútveg. Sannleikurinn er samt sá að það eru ekki margir áratugir síðan vökulögin tóku gildi og samkvæmt nýlegum fréttum virðist sem svo að þau séu enn ekki öllum kunn, sem ætti að vera það.
Fjölmörg samtök fiskimanna í Afríku, Asíu og Suður-Ameríku efna til ýmiss konar viðburða í dag þótt hljótt sé um það í heimspressunni.
Myndin er frá Ghana