Grásleppumarkaður í jafnvægi

Á upplýsingafundi um grásleppumál, sem áður hefur verið getið um, kom fram að auka þarf veiði frá síðustu vertíð.  Markaður er fyrir veiði sem skilar um 20% meira magni en í fyrra.  Verði aukningin jöfn hjá öllum veiðiþjóðum ættu grásleppukarlar á Íslandi ekki að lenda í vandræðum með sölu á 12 – 13 þúsund tunnum.
Grásleppunefnd LS mun koma saman til fundar 8. febrúar nk. og meta þá stöðuna með tilliti til komandi vertíðar.  Bera saman bækur sínar um áhuga fyrir veiðunum og þá hversu mörg leyfi verði nýtt.   Á vertíðinni 2015 voru 323 leyfi nýtt, en á síðustu vertíð fækkaði þeim um 75, 245 bátar stunduðu þá veiðarnar.   Á báðum vertíðunum var leyfilegt að stunda veiðar í 32 daga.
16252088_1215556698531262_7452736848909600363_o.jpg
Hafrannsóknastofnun sendir árlega ráðgjöf um heildaraflamark á grásleppu til Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.  Í fyrra var ráðgjöfin 6.800 tonn ( um 13 þús. tunnur) sem byggð var stofnmælingum að vori.  Við útreikninga á hver verður niðurstaðan um veiðimagn á komandi vertíð hefur mælingin 2016 30% vægi og það sem mælist í togararallinu í mars nk. 70%.  Gera má ráð fyrir að niðurstöður liggi fyrir um mánaðarmótin mars – apríl.
Veiðin á vertíðinni í fyrra varð nokkuð undir ráðleggingu stofnunarinnar eða rúm 5.400 tonn.  Ástæður þess mátti helst rekja til markaðsaðstæðna, verð sem boðið var í upphafi vertíðar dró úr áhuga manna fyrir veiðum.   
Á undanförnum sex árum er óverulegur munur á ráðgjöf og afla – aflinn hefur þó vinninginn, en hann er samtals 4,5% umfram ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar.   Miðað við þá niðurstöðu hefur tekist afar vel að stýra veiðunum með ákvörðun um leyfilegan fjölda sóknardaga m.t.t. ráðgjafar.   Grafið hér að neðan sýnir grásleppuafla og ráðgjöf Hafró tímabilið 2011 – 2016.
Screen Shot 2017-02-06 at 14.15.16.jpg