Loðna flæddi inn á Skagafjörð í byrjun mánaðarins og þegar þetta er ritað virðist hún vera komin í talsverðu magni inn í Eyjafjörð. Virðist leita með landinu austur á bóginn. Því ber að fagna þegar þorskurinn fær góða innspýtingu og nóg að éta. Hins vegar hefur ganga loðnu inn á firði og flóa kunnar afleiðingar, þorskafli á línuna dettur niður. Dæmi eru um að veiðin hafi dottið úr því að vera um 150 kg á bala niður í ekki neitt á einum sólarhring. Trekt er í þorski hjá línubátum fyrir norðan, menn eru því að reyna við ýsu og steinbít. Góð veiði er hjá netabátum.
Algeng viðbrögð hjá mönnum við þessu er að sigla á önnur mið. Aðstaða sumra leyfir það hins vegar ekki og þá er ekki um annað að ræða en að þreyja þorrann, enda stutt í góuna. Aðrir fara jafnvel suður á bóginn. Koma við í Breiðafirðinum á leið sinni að Reykjanesi.
Heimamenn fyrir norðan fullyrða að loðnan sé nú fyrr á ferðinni heldur en vanalega. Óvenjulegt sé að vart verði við loðnu þar í byrjun febrúar. Það kemur heim og saman við fréttir af hrognafyllingu og þroska hennar, talað um a.m.k. 10 daga fyrr en í venjulegu ári.
Trillukarlar fyrir norðan hafa fengið loðnu til beitu af norsku skipunum. Hún er stór og falleg og þykir einstaklega góð. Aðspurðir hvort einhver munur sé á því sem fæst úr flottrollinu eða úr nótinni, er svarið ákveðið já. Eins sólarhrings gömul úr nót, af henni sé sterkari keimur sem gerir hana að betri beitu. Áferð, ferskleiki og útlit sé einnig betra. Rétt er að geta þess að reglur í Noregi og Færeyjum banna notkun flottrolls við loðnuveiðar. En eins og oft hefur komið fram í umræðunni er notkun þess umdeild. LS hefur í gegnum tíðina ályktað gegn flottrollsveiðum hér við land.
Norsku og Færeysku loðnuskipin eru nú að veiðum frá mynni Eyjafjarðar og þau sem komin eru austast eru á Héraðsflóa.
Hafrannsóknastofnun hefur farið í þrjá leiðangra á fiskveiðiárinu. Í september / október þar sem mælingar sýndu veiðistofn það lítinn að ákveðið var að engar veiðar yrðu stundaðar nema mælingar í janúar / febrúr gæfu tilefni til þess. Niðurstöður úr leiðangri sem farinn var í janúar gaf niðurstöður um að veiðistofn væri 446 þúsund tonn. Á grundvelli þess var ákveðið að aflamark yrði 57 þús. tonn.
Nú er nýlokið þriðja leiðangrinum. Hvort hann gefi stærri veiðistofn en áður hefur mælst skal ósagt látið. Niðurstöður verða líklega birtar í vikunni.