Þann 2. mars sl. sýknaði Hæstiréttur ríkið af kröfu Þorbjarnar hf í Grindavík um að sjávarútvegsráðherra hafi verið skylt að hlutdeildarsetja gulllax fiskveiðiárið 2009/2010. Af þeim sökum hefði félagið orðið fyrir tjóni þar sem félagið hefði ekki notið veiðireynslu næst liðinna þriggja ára sem hefði gefið mun hærri hlutdeild en varð við hlutdeildarsetningu árið 2013.
Jón Bjarnason þáverandi sjávarútvegsráðherra ákvað hins vegar að veiðum á gulllaxi yrði stjórnað með reglugerð. Sérstakt leyfi þyrfti til að stunda þær og það síðan fellt úr gildi þegar leyfilegum heildarafla væri náð.
Í dómsmálinu var í raun verið að takast á um hvort sjávarútvegsráðherra væri skylt að stjórna veiðum frá upphafi með kvóta aflamarki sem réðist af aflahlutdeild sem myndast hefði á næstliðnum þrem árum eða honum væri heimil stjórnun með sérleyfi sem takmarkaðist við ákveðinn heildarafla í tegundinni.
Sigurður Ingi Jóhannsson ákvað í lok ágúst 2013 að víkja frá því veiðikerfi sem verið hafði á gulllaxi og stjórna með aflamarki sem grundvallað væri á aflahlutdeild. Skipum sem höfðu aflareynslu í gulllaxi á næstliðnum þremur fiskveiðiárum var úthlutað hlutdeild og aflamark gefið út. Áhugavert er að í dómi héraðsdóms kemur fram að ráðherra hafi ekki verið skylt að kvótasetja veiðarnar með hlutdeildarsetningu.
Samtímis ákvað ráðherra að hlutdeildarsetja veiðar á litla karfa og blálöngu. LS gagnrýndi harðlega ákvörðun ráðherra sem tók til blálöngu og gerði úttekt á hverju það skilaði í sérstakri frétt hér á síðunni.
Dómur Hæstaréttar er gríðarlega mikilvægur fyrir kröfu LS um 16% hlut í makríl. Brotnar eru girðingar sem reistar hafa verið gegn kröfunni með því að bera fyrir sig að ráðherra hafi verið skylt að hlutdeildarsetja makrílinn. Það hefur að vísu verið gert með reglugerð sem Sigurður Ingi setti fyrst vorið 2015. Ákvæði í henni kveða á um kvóta á hvert skip grundvallað á aflahlutdeild hvers og eins. Ætlunin var að fá frumvarp um hlutdeildarsetningu á makríl samþykkt sem lög, en mótmæli 53 þúsund Íslendinga komu í veg fyrir það. Því er hægt að segja að setning reglugerðarinnar, sem nánast var afrit af frumvarpinu, hafi verið í óþökk við vilja þjóðarinnar. Reglugerðin kveður á um of litla og ósanngjarna hlutdeild smábáta. Hún útilokar nýja smábátaeigendur til að hefja veiðar á makríl og stöðvar framþróun færaveiða þar sem helftin af veiðiheimildunum fór til örfárra báta.
Nú er boltinn hjá Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þar sem LS gerir kröfu um að ákvæði reglugerðar um kvótasetningu smábáta verði fellt úr gildi. Veiðar smábáta verði ekki takmarkaðar fyrr en 16% hlutdeild verði náð.
Makrílveiðum smábáta var ekki leyft að þróast eins og eðlilegt hefði verið. Einnig voru eilífir fjötrar settir á veiðarnar, t.d. þegar ráðherra stöðvaði veiðar þeirra 5. september 2014. Þá var mokveiði og markaður góður fyrir makrílinn.
Krafa LS um 16% hlut í veiðunum er meðal annars byggð á reynslu Norðmanna sem hafa áratuga reynslu af makrílveiðum þar sem hlutur minni báta í veiðunum er 16-18%.
Á fundi sem LS átti nýverið með Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur var vakin athygli á þessu málefni ásamt ályktun sem stjórn LS samþykkti 17. febrúar sl.